Sumir ekki jafnari en aðrir

0
459

homophobia

11. desember 2012. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna krefst þess að þegar í stað verði bundinn endir á ofbeldi og mismunun gagnvart fólki á grundvelli kynvitundar og kynhneigðar.

 

“Leyfið mér að segja þetta afdráttarlaust:  lesbíur, hommar, tvíkynhneigt fólk og trans-fólk hafa sömu réttindi og allir aðrir. Þau eru líka fædd frjáls og jöfn öðrum að réttindum,” sagði Ban í New York á málþingi Sameinuðu þjóðanna í gær um nauðsyn forystu til að takast á við hatur á samkynhneigðum.

 “Það er svívirðilegt að á okkar tímum skuli mörg ríki ennþá gera fólk að glæpamönnum fyrir þær sakir einar að elska aðra manneskju af sama kyni. Í flestum tilfellum eiga sér þessi lög ekki rætur í samfélögunum sjálfum, heldur eru arfur nýlendutímans,” sagði hann og bætti við að afnema bæri slík lög án tafar.

Skrifstofa Mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) gaf fyrir ári út fyrstu yfirlitsskýrslu samtakanna um ofbeldi og mismunun í garð lesbía, homma, tvikynheigðra og transfólks eða LGBT eins og skammstöfun nafna þessara hópa hljómar á ensku. Í skýrslunni eru tíunduð mannréttindabrot víða um heim. Í fleiri en 76 ríkjum eru sambönd fólks af sama kyni bönnuð með lögum og mismunun er algeng víða.

Framkvæmdastjórinn lagði út af upphafsorðum Mannréttindayfirlýsingarinnar, en í fyrstu greininni segir: “Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum.”
“Takið eftir að þarna segir “allir” – ekki sumir, ekki flestir, heldur allir.” Engum leyfist að ákveða að sumum beri að njóta mannréttinda og öðrum ekki.”

“Við erum ekki að biðja um nein sérréttindi,” sagði dægurlagasöngvarinn Ricky Martin frá Puerto Rico sem kom fram á blaðamannafundi með Ban Ki-moon.  “Við biðjum aðeins um sömu réttindi og aðrir. Við viljum hvorki meira né minna; bara það sama og aðrir.”

Mynd: Suður-afríska söngkonan Yvonne Chaka Chaka, Ban Ki-moon og Ricky Martin á blaðamannafundi í New York. SÞ/Ricky Bajornas.