Ban hvetur til heimsbyltingar til að tryggja öllum jarðarbúum hreina orku

0
449
alt

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að heimsbyltingar sé þörf til að rafvæða þróunarlöndin en 1.6 milljarður manna býr við rafmagnsleysi.

 “Við þurfum á heimsbyltingu hreinnar orku að halda– byltingu sem hefur í för með sér aðgang allra að orku á viðráðanlegu verði,” sagði Ban í ávarpi sínu á fjórða Framtíðarorkuþingi heimsins í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

alt “Þetta er mikilvægt til að draga úr hættunni af loftslagsbreytingum; til að minnka fátækt og bæta heilbrigði; valdefla konur og ná Þúsaldarmarkmiðunum um þróun; efla hagvöxt á heimsvísu og frið og öryggi,” bætti hann við.

Ban Ki-moon kynnir sér sýningu á hátækni í orkugeiranum í Abu Dhabi. SÞ-mynd: Evan Schneider.

 

Framkvæmdastjórinn lagði áherslu á að ákvarðanir sem teknar væru á þessari stundu myndu hafa víðtækar afleiðingar. Núverandi notkun jarðefnaeldsneytis stuðlar að loftslagsbreytingum og þörf heimsins fyrir orku fer stigvaxandi.

Næstu tuttugu árin mun orkunotkun aukast um 40 af hundraði, aðallega í þróunarríkjum, þar sem 1.6 milljarður manna er rafmagnslaus.

Ráðgjafanefnd framkvæmdastjórans um orku og loftslagsbreytingar sem skipuð var 2009 hefur lagt til tvö “djörf en framkvæmanleg” markmið fyrir 2030 en þau eru almennur aðgangur að nútímarafmagni og 40% bætt nýting orku. “Til þess að ná þessu verðum við að fjárfesta í hugviti til að skapa nýja græna tækni,” sagði framkvæmdastjórinn. “Við þurfum að auka fjárfestingar einkaaðila og hins opinbera í rannsóknum og þróun og ríkisstórnir verða að skapa nægilegan hvata.”