Ban: Kapphlaup við tímann til að bjarga heiminum

0
400

GA 2012
26. september 2012 – Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði að runnin væri upp ögurstund og heimurinn væri í kapphlaupi við tímann til að bjarga sjálfum sér. 

“Ég stend hér að þessu sinni og hringi viðvörunarbjöllu vegna þeirrar stefnu sem fjölskylda mannsins hefur tekið,” sagði Ban Ki-moon þegar almennar umræður hófust í gær á 67. Allsherjarþinginu. “Við lifum á tímum óróa, umskipta og umbreytinga – á tímum þegar sjálfur tíminn er ekki á okkar bandi.”

Tugir veraldarleiðtoga; þjóðhöfðingja, oddvita ríkisstjórna og annara málsmetandi leitðtoga, munu kynna skoðanir ríkja sinna á þeim málum sem eru í deiglunni á alþjóðavettvangi í umræðunum sem munu standa til 1. október. 

  Ban fagnaði mikilvægum árangri á ýmsum sviðum: sárafátækt hefur verið helminguð miðað við árið 2000, lýðræðisleg umskipti eiga sér stað í Araba-heiminum, Myanmar og fleiri ríkjum; hagvöxtur í Afríku er sá mesti í heimi og Asía og Suður-Ameríku taka miklum framförum.

“Við verðum samt að herða róðurinn. Hvert og eitt ykkar verður að leggja meir af mörkum og við þurfum á öllum að halda. Og heimurinn krefst meiar af Sameinuðu þjóðunum,” sagði hann. “Fólk vill sjá árangur nú, ekki í fjarlægri framtíð.”

 Yfirmaður Sameinuðu þjóðanna lagði áherslu á að alvarleg og umfangsmikil áhrif loftslagsbreytinga væru hverju manni sjáanleg en engu að síður virtust of margir ráðamenn snúa blinda auganu að þessari ógn, vitandi vits.

Hann benti á að í desember síðastliðnum hefðu aðildarríkin samþykkt að gera lagalega bindandi samkomulag fyrir 2015.  “Þið verðið að standa við þetta fyrirheit. Tíminn er á þrotum og sömuleiðis möguleikar okkar til að stöðva hækkun hitastigs á jörðinni við tvær gráður.”