Ban Ki-moon: Ísland verður senn íslaust

0
524

 

ki-moon

20.nóvember 2013. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að ef ríki heims grípi ekki til skjótra aðgerða í loftslagsmálum verði Ísland senn íslaust.

Ban lét þessi orð falla þegar hann ávarpaði Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Varsjá í gær. Í ræðunnni hvatti hann samningamenn til dáða og rifjaði upp heimsókn sína til Íslands fyrr á þessu ári en þar sagði hann jökla bráðna hraðar en víðast hvar í heiminum. “Mér var sagt að ef ekki væri gripið til brýnna aðgerða nú myndi Ísland vera orðið íslaust innan skamms tíma.”

 

Ban lagði útfrá fellibylnum mannskæða á Filippseyjum og sagði hann skýrt dæmi um hinar hættulegu afleiðingar hlýnunar jarðar. Skoraði hann á ríki heims til að standa undir væntingum og ryðja brautina fyrir bindandi loftslagssamkomulagi árið 2015.
“Loftslagsbreytingar ógna núverandi og komandi kynslóðum,” sagði Ban.

Loftslagsráðstefnan í Varsjá er fundur aðila Rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCC). Athyglin hefur beinst að áhrifum loftslagsbreytinga á fæðuöryggi í heiminum og krafa um að ríkar þjóðir láti fé af hendi rakna til að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga í þróunarríkjum, verður sífellt háværari. Fulltrúar fátækra ríkja á ráðstefnunni hafa bundist samtökum um að krefjast fjármögnunar sjóðs til að standa straum af skakkaföllum þróunarríkja. Prakash Mathema, oddviti hóps Minnst þróuðu ríkja heims (LDC) sagði að ríku löndin hefðu skuldbundið sig á fundi aðila Rammasamningsins í Doha í fyrra að gengið yrði frá málinu nú í Varsjá. “Við förum ekki heim án þessa ferlis sem lofað hefur verið. Ríku löndin geta ekki slegið þessu endalaust á frest.”

Ráðstefnunni á að ljúka á föstudag en ráðherrar hafa nú tekið við samningaviðræðunum. Yeb Sano, samningamaður Filippseyja hefur nú verið í níu daga hungurverkfalli til að leggja áherslu á kröfuna um samþykkt fjárframlaga og greiðsluferlis til að hjálpa þróunarríkjunum að glíma við afleiðingar loftslagsríkjunum.

Mynd: Ban Ki-moon ávarpar Loftslagsráðstefnuna -COP 19 eða 19.fund aðila Loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna. SÞ-mynd/Evan Schneider