Ban Ki-moon: “Tími til kominn að útkljá stöðu Kosovo”

0
503
13. mars 2007. Viðræður ríkisstjórnar Kosovo undir forystu Albana og ríkisstjórnar Serbíu eru strandaðar og því er kominn tími til að alþjóðasamfélagið leiði stöðu héraðsins til lykta. Þetta segir framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon í skýrslu til Öryggisráðsins sem gefin var út í dag.

“Kosovo og íbúar þess þurfa skýr svör um framtíð sína, eftir átta ára bráðabirgðastjórn Sameinuðu þjóðanna”, sagði Ban í skýrslunni. 
Ban bætti því við að nauðsynlegt væri að finna “varanlega lausn” fyrir Kosovo sem fæli í sér stöðugleika og möguleika fyrir öll þjóðarbrot til að lifa saman í sátt og samlyndi. Ban fordæmdi einnig ofbeldisverk öfgahópa.  
Tveir létust þegar flokkur hraðskilnaðarsinna,  Vetevendosje, efndi til mótmæla í höfuðborg héraðsins Pristina 10. febrúar.
Martti Ahtisaari, sérstakur erindreki framkvæmdastjórans lýsti því yfir að viðræður deilenda hefðu ratað í blindgötu um síðustu helgi, enda hvorugur aðili slegið nokkuð af sínum kröfum. Leiðtogar Albana sem eru 90% íbúa Kosovo krefjast sjálfstæðis en því hafna Serbar. 

Sjá nánar: http://www.un.org/apps/news/story.asp?NewsID=21857&Cr=kosovo&Cr1=