Ban: Leiðtogum ber að hlusta

UN city

4. júlí 2013. Ban Ki-moon ,framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvatti í dag til þess að borgarleg stjórn tæki við völdum eins fljótt og auðið væri  í Egyptalandi og sagði að íhlutun hers í stjórnmál, hvar sem væri í heiminum, væri andstæð grundvallarhugsjónum lýðræðisins. Hins vegar sagði Ban að “hlusta yrði á væntingar og raddir almennings.”

Ástandið í Egyptalandi skyggði á allt annað þegar Ban Ki-moon og Helle Thorning Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur sátu fyrir svörum blaðamanna að lokinni vígslu Höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna í Damörku að viðstaddri Margréti annari Danadrottningu.

“Frá því að pólitísk umskipti hófust í Arabaheiminum og víðar hef ég sagt veraldarleiðtogum að þeir verði að hlusta á raddir og áhyggjuefni fólksins. Þetta er frumskylda leiðtoga,” sagði Ban á blaðamannafundinum.

Hið nýja hús Sameinuðu þjóðanna er reist á loftslagsvænum og sjálfbærum forsendum og er sjór notaður til að kæla og sólarljós til að hita húsnæðið.

Christian Friis Bach, þróunarráðherra Dana lagði út frá því  að stigi í andyri hússins væri eins og klipptur út úr Harry Potter og sagði að Sameinuðu þjóðirnar þyrftu “ef ekki á göldrum að halda, þá að minnsta kosti miklu ímyndunarafli.”

Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra sagði við opnunina að þrátt fyrir fjármálakreppuna myndi ríkisstjórn hennar halda fast í há framlög Dana til þróunarsamvinnu sem nema nú 0.83% af þjóðartekjum.

Mynd: Ban Ki-moon flytur ávarp við vígslu höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn. SÞ-mynd/Eskinder Debebe.