Ban: “Steypum harðstjórn óbreytts ástands”

0
454

Ban

23. janúar 2013. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að engu sé líkara en leiðtogar heimsins hafi sett á “sjálfsstýringu” og hvatti til þess að steypt yrði af stóli “harðstjórn óbreytts ástands” til þess að árangur mætti nást á árinu 2013.
Ban lét þessi orð falla í fyrsta ávarpi sínu á árinu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Hann hvatti til nýstárlegra aðgerða til þess að takast á við hinar mörgu áskoranir sem heimurinn stæði andspænis, og lagði áherslu á að sömu gömlu úrræðin (“business as usual”) dygðu ekki til. Hann nefndi sérstaklega sameiginleg markmið á borð við sjálfbæra þróun, afvopnun og átakalausn sem mikilvægustu málin.  
“Mín innilega von og okkar sameiginlega brýna þörf er sú að því linni að við veltumst á milli vandamála, og tökumst á við eitt sjúkdómseinkenni eftir annað í þess að takast á við undirliggjandi orsakir og samhengi og viðurkennum að margar aðferða okkar eru gallaðar,” sagði Ban í ræðu sinni.  
Hann sagði að of oft væru ríkisstjórnir og alþjóðlegar stofnanir á “sjálfstýringu”.

“Málefni eru í einangruðum farvegi; ekkert er hafst að fyrr en í óefni er komið þótt ölum megi vera ljóst hvert stefni og allt í nafni þess að “svona hefur alltaf verið gert”, eða vegna þess að raunverulegar breytingar eru taldar of dýrar eða óraunsækjar eða að hagsmunaaðilar hafa kverkatak á löggjafarvaldi,” sagði hann.

 “Tími þess að hjakka í sama farinu er liðinn og við verðum að losa um aðra bremsu sem hamlar sameiginlegri framþróun okkar: við verðum að steypa harðstjórn óbreytts ástands.”
Fyrst af öllu hvatti Ban aðildarríkin til þess að láta rausnarlega fé af hendi rakna á ráðstefnu um mannúðaraðstoð við Sýrlendinga sem hefst í næstu viku í Kuwait. Mannúðarsamfélagið fer þar fram á einn og hálfan milljarð Bandaríkjadala til þess að aðstoða milljónir þurfandi manna næsta hálfa árið.

 “Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur í þágu þurfandi Sýrlendinga. Við verðum að tvíefla viðleitni okkar til að binda á ofbeldið, og yfirstíga klofninginn í Sýrlandi, heimshlutanum og Öryggisráðinu,” sagði hann og benti á að nú væri við mesta fjölda flóttamanna í Sýrlandi og annars staðar í heiminum, að glíma frá því í Kosovostríðinu fyrir 13 árum.
Hann sagði að á nýbyrjuðu ári þyrfti að “endurskoða aðkomu okkar” að málefnum Kongó, bjarga tveggja-ríkja lausninni og friðarferli Ísraela og Palestínumanna, efla verndarskylduna, kjarnorkuafvopnun og fleira.
 
Þá nefndi hann áframhaldandi átak í sjálfbærri þróun, og herferðir til höfuðs ofbeldi vegna kynhneigðar og gegn kynbundnu ofbeldi.
 Á blaðamannafundi að ræðunni lokinni sagði framkvæmdastjórinn: “Ég óttast að í mörgum af þessum málum séum við á slíkri leið að fólk muni spyrja sig eftir einn eða tvo áratugi, hvers vegna og vegna hvaða þröngra hagsmuna, hafi leiðtogarnir ekki greint hvað var okkur öllum fyrir bestu.”