Banderas hvetur til aðstoðar við nauðstadda í Afríku

0
397

Kvikmyndaleikarinn og góðgerðasendiherra Sameinuðu þjóðanna Antonio Banderas hvetur almenning til þess að koma til aðstoðar þeim tólf milljónum manna á austurodda Afríku sem eru í nauðum staddir vegna hungursneyðar, þurrka, ófriðar og hás matarverðs.

“Í dag er fólk að deyja úr hungri um allan austurodda Afríku og hundruð þúsunda hafa yfirgefið heimili sín og farið á vergang í leit að mat,” segir Banderas (sjá meðfylgjandi myndband) um hörmungarnar sem nú dynja á Djibouti, Eþíópíu, Kenía og Sómalíu.

“Við verðum að fylkja liði um allan heim til þess að mæta þessum erfiðleikum og færa nauðstöddum von í nafni mannkynsins sem við öll tilheyrum.”

Undanfarna viku hafa Sameinuðu þjóðirnar lýst fimm svæði í Sómalíu hungursvæði en það er alvarlegasta stig fæðuskorts. Þetta þýðir að 30 prósent barna eru alvarlega vannærð og fjögur börn af hverjum tíu þúsund látast á degi hverjum. 
“Sú ákvörðun að lýsa yfir hungursneyð er ekki tekin af neinni léttúð,  heldur sýnir hún hversu alvarlegur og brýnn vandinn er”, segir Mark Bowden sem samræmir starf Sameinuðu þjóðanna í Sómalíu.

“Sameinuðu þjóðirnar vinna að því hörðum höndum að bjarga mannslífum og reisa fólkið við á nýjan leik. En til þess þurfa samtökin á þinni aðstoð,” segir Banderas og bætir við: “Með því að aðhafast nú þegar, getum við bjargað mannslífum.”
Antonio Banderas hefur verið góðgerðasendiherra UNDP, Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna frá því í mars 2010.
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna stendur nú fyrir söfnunarátaki fyrir nauðstadda á austurodda Afríku en fræðast má um hana og ástandið þar á www.unicef.is.