Baráttudagur helgaður atvinnu

0
423
Fjölskylda í Jamshoro tjaldbúðunum í Sindh-héraði í Pakistan eldar mat með aðstoð Matvælaáætlunnar SÞ (WFP). SÞ

Fjölskylda í Jamshoro tjaldbúðunum í Sindh-héraði í Pakistan eldar mat með aðstoð Matvælaáætlunnar SÞ (WFP). SÞAlþjóðadagurinn til útrýmingar fátæktar, 17. október,  er að þessu sinni helgaður atvinnu. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir í ávarpi sínu í tilefni dagsins að sómasamleg og afrakstursrík atvinna sé eitt beittasta vopnið í baráttunni gegn fátækt.

Fjölskylda í Jamshoro tjaldbúðunum í Sindh-héraði í Pakistan eldar mat með aðstoð Matvælaáætlunnar SÞ (WFP). SÞ/WFP-mynd: Amjad Jamal.

“Því miður hefur meir en helmingur vinnuafls heimsins ótrygga atvinnu. Fólkið skortir formlega ráðningarsamninga og almannatryggingar og launin hrökkva oft ekki til að framfleyta fjölskyldu, hvað þá að nýta sér efnahagsleg tækifæri. Efnahagskreppan hefur sökkt 64 milljónum í fátæktar-fenið og atvinnuleysi hefur aukist um 30 milljónir síðan 2007,” segir Ban í ávarpi sínu.

Framkvæmdastjórinn lýsti sérstaklega áhyggjum sínum af hlutskipti ungs fólks en á síðasta ári var 81 milljón ungmenna atvinnulaus sem er mesti fjöldi sem dæmi er um.

“Leiðtogar heimsins komu sér saman um aðgerðaáætlun til að efla baráttuna gegn fátækt í heiminum á leiðtogafundi um Þúsaldarmarkmiðin um þróun í New York í síðasta mánuði. Þrátt fyrir ánægjulega framþróun í mörgum heimshornum, búa hundruð milljóna manna enn við skelfilegar aðstæður og skortir einföldustu þjónustu.

 Að vinna bug á atvinnukreppunni er þungamiðja baráttunnar til að breyta þessari heimsmynd; að vinna bug á fátækt, efla efnahaginn og skapa friðsöm og stöðug samfélög.”

Alþjóðadagurinn til að uppræta fátækt á rætur að rekja til 17. október 1987. Þá söfnuðust meir en hundrað þúsund manns saman á Trocadéro í París, þar sem Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var undirrituð 1948, til að heiðra fórnarlömb sárafátæktar, ofbeldis og hungurs. Því var lýst yfir að fátækt væri mannréttindabrot og þess krafist að þessi réttindi skyldu virt.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti 1992 að 17. október skyldi helgaður upprætingu fátæktar.

Sjá nánar: http://www.un.org/en/events/povertyday