Bíó fundur um nauðganir í stríði

0
463
alt

Sænska myndin Kvennastríðið sem fjallar um nauðganir í stríðunum í Austur Kongó og Bosníu verður fyrsta mynd í Bíó-funda syrpu sem félög og stofnanir Sameinuðu þjóðanna munu standa fyrir í vetur í samvinnu við Bíó Paradís.

alt

Í Kvennastríðinu eru leiddar saman konur frá Kongó og Bosníu en í báðum löndum hafa nauðganir verið notaðar sem vopn. Myndin verður sýnd klukkan 20 mánudaginn 8. nóvember, en að sýningu lokinni ræða Íris Kristinsdóttir, lögfræðingur, Edda Jónsdóttir, mannréttindafræðingur og Bergljót Arnalds, rithöfundur um efni myndarinnar við áhorfendur.

 

 UNIFEM (hluti af Jafnréttisstofnun Sþ – UN Women), Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi standa að Bíó-fundunum. Á Bíó fundunum í Bíó Paradís verða sýndar myndir sem tengjast málefnum sem eru í brennidepli og tengjast Sameinuðu þjóðunum. Að sýningu lokinni eru málefni myndanna skeggrædd, með þátttöku sérfróðra einstaklinga. Ætlunin er að Bíó-fundir verði haldnir með reglulegu millibil í vetur.

Nýlegar fréttir um að 300 hafi verið nauðgað á þremur dögum af uppreisnarmönnum í Austur Kongó hafa vakið mikinn óhug enda fóru þær framhjá Friðargæslusveitum Sameinuðu þjóðanna í nágrenninu.
Talið er að 20 til 50 þúsund konum hafi verið nauðgað í Bosníu en frá 200 til 500 þúsund konum og raunar körlum einnig í Kongó.

Kvennastríðið er hlýleg og áhugaverð mynd um kynni Esther Munyerenka sem vinnu á sjúkrahúsi í Kongó og Mira Vilusic, sálfræðings frá Bosníu og Hersegóvínu. Þær koma sín úr hverju heimshorni en eiga það sameiginlega að reyna að hjálpa konum sem nauðgað hefur verið í stríði.

Marika Griehsel leikstýrði myndinni sem gerð var að frumkvæði sænsku samtakanna Kvinna til kvinna. (sjá nánar: http://www.kvinnatillkvinna.se/en/womens-war-a-documentary-about-sexual-violence-in-conflicts)

alt

Við sama tækifæri verður opnuð í Bíó Paradís sýning á auglýsingum sem komust í úrslit í nýlegri samkeppni Sameinuðu þjóðanna í Evrópu um bestu auglýsinguna gegn fátækt í heiminum. Stefán Einarsson, hönnunarstjóri Hvíta hússins sigraði í keppninni og átti þrjár auglýsingar af þrjátíu sem komust í úrslit en alls bárust rúmlega 2000 auglýsingar í keppnina.

Aðgangseyrir er 750 krónur.