Björk segir kreppuna ekki mega vera skálkaskjól

0
541

Brussel 6. nóvember 2008.

Björk Guðmundsdóttir, forsprakki Náttúru hreyfingarinnar sagði á blaðamannafundi í Brussel í dag að efnahagskreppan mætti ekki verða Íslendingum skálkaskjól til að auka losun gróðurhúsalofttegunda.
 

“Ísland fer fram úr því hámarki sem ákveðið var í Kyoto bókuninni ef álverin á Bakka og í Helguvík verða byggð. Ég tel að Ísland verði að endurskoða afstöðu sína í loftslagsmálum ef við ætlum að eiga vinsamleg samskipti við aðrar þjóðir,” sagði Björk í Brussel.

Björk tók þátt í blaðamannafundi Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna og Road to Copenhagen framtaksins ásamt Margot Wallström, varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Gro Harlem Brundtland, sérstökum sendimanni Sameinuðu               þjóðanna í loftslagsmálum og Mary Robinsson, fyrrverandi forseta Írlands.

 

Björk og Náttúra fyrsta framtak CoolPlanet2009

 

Afsané Bassir-Pour, forstjóri UNRIC kynnti á fundinum væntanlega Evrópuherferð upplýsingaskrifstofunnar í umhverfismálum “CoolPlanet2009”. Björk og Náttúruhreyfingin komu fram á fundinum sem fyrsta umhverfis-framtakið sem vakin er athygli á herferðinni.

“Væntanlegri vefsíðu okkar er ætlað að upplýsa og hvetja evrópskan, almenning, ríkisstjórnir og almannasamtök,” sagði Bassir-Pour á blaðamannafundinum. “Henni er ætlað að vera markaðstorg   hugmynda.”         

                                                                            Björk og Afsané Bassir-Pour.                          

Blaðamannafundurinn var haldinn í tengslum við ráðstefnu the Road to Copenhagen um loftslagsmál í húsakynnum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

 

Obama gefur skýr skilaboð

Mikið var spurt um afstöðu þátttakenda til forsetakosninganna í Bandaríkjunum.

Margöt Wallström, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagðist vonast til að Barack Obama myndi gera loftslagsmál að umtalsefni í fyrstu ræðum sínum eftir kjör hans á forsetastól. “Slíkt myndi hafa áhrif á samningaviðræðurnar í loftslagsmálum í Poznan í desember.”

Gro Harlem Brundtland fyrrverandi forsætisráðherra Noregs benti á að þótt Bush stjórnin yrði enn við völd í desember myndi Obama senda sérstakt teymi á fundinn. “Hann sagði brýnustu málin sem blöstu við honum í byrjun forsetatíðar vera  loftslagsmálin auk tveggja styrjalda og fjármálakreppunnar. Ég tel þetta skýr skilaboð til samningaviðræðna Sameinuðu þjóðanna um að loftslagsmálin fái forgang,” sagði Gro Harlem og vitnaði til ræðu sem Obama hélt þegar hann náði kjöri.

 

Óttaleysi Íslendinga á ekki heima á Wall street

Björk Guðmundsdóttir gerði fjármálakreppuna að umtalsefni. “Óttaleysi er yndislegur þáttur í þjóðarkarakter Íslendinga og áhættufíkn sem er svo mikil að jaðrar við fífldirfsku. Ég er hins vegar ekki viss um að þessi einkenni eigi heima á hlutabréfamarkaðnum. Hins vegar kemur þetta sér vel í tónlist og nýsköpun.”

Hún sagðist óska þess að Ísland yrði sjálfbærara og sköpunarglaðara. “Við ættum að frekar að laga okkur að tuttugustu og fyrstu öldinni en þeirri nítjándu. Ísland gæti byggt færri, smærri og grænni virkjanir. Við ættum að nota kreppuna til að verða algjörlega sjálfbær. Við ættum að kenna heiminum að beisla jarðhitaorku. Uppbyggingin tekur kannski lengri tíma og aðurinn skilar sér síðar en þetta er traust og áreiðanlegt og stendur af sér rússibanareið Wall Street og álmarkaðarins.”

 Margot Wallström, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Nicolas Rougy hjá Club de Madrid, Mary Robinson,fyrrv. forseti Írlands og Björk.

(frá Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu, UNRIC)