Brjóstagjöf best og ódýrust

0
462

breast-feed

1.ágúst 2013. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hefur hleypt af stokkunum Alþjóðlegri brjóstagjafaviku til þess að vekja athygli á að brjóstagjöf er ódýrasta og skilvirkasta leið til að bjarga lífi ungbarna.
“Það er ekki hægt að benda á neitt eitt heilbrigðisúrræði sem vegur jafn þungt fyrir börn og mæður og brjóstagjöf, sem þar að auki er ódýrt fyrir ríkiskassann,” segir Geeta Rao Gupta, varaforstjóri UNICEF. “Brjóstagjöf er fyrsta “ónæmisaðgerð” á barninu og öflugasta og ódýrasta björgun mannslífa sem um getur. Þrátt fyrir ótvíræða kosti jafnt fyrir börn sem mæður er innan við helmingur allra barna í heiminum eingöngu á brjósti fyrstu sex mánuðina. 

Alþjóða brjóstagjafavikan er haldin frá 1.til 7.ágúst í meir en 170 löndum til að hvetja mæður til að gefa börnum sínum brjóst til þess að bæta heilsuna. Bæði UNICEF og WHO, Alþjóða heilbrigðismálastofnunin mæla með því að börn séu eingöngu höfð á brjósti í sex mánuði og haldi áfram að hluta í tvö ár og jafnvel lengur.

Börn sem eru höfð á brjósti eru fjórtán sinnum líklegri til að lifa fyrstu sex mánuðina en önnur. UNICEF telur að líkur á dauða barns minnki um 45% sé því gefið brjóst frá fyrsta degi.
Brjóstagjöf ýtir þar að auki undir námsgetu barns og vinnur gegn offitu og krónískum sjúkdómum síðar á lífsleiðinni. Rannsóknir í Bandaríkjunum og Bretlandi benda til að mikið fé sparist við brjóstagjöf vegna þess að þeir sem eru hafðir á brjósti, veikist síður.

Enn má bæta við að konur sem hafa börn á brjósti verða síður ófrískar á fyrstu sex mánuðum eftir fæðingu, eru fljótari að ná sér eftir barnsburð og ná skjótar fyrri þyngd,.
Konum sem hafa börn á brjósti er þar að auki síður hætt við fæðingarþunglyndi og minni líkur eru á að þær fái eggjastokka- og brjóstakrabbamein síðar á æfinni að sögn UNICEF.
Þrátt fyrir þetta voru aðeins 39% barna innan við 6 mánaða, höfð á brjósti árið 2012.

Mynd: Móðir í Tansaníu með barn á brjósti. SÞ-mynd/ B. Wolff