Búist við 4 milljónum flóttamanna

0
474

Hjálparstarfsfólk Sameinuðu þjóðanna óttast að flóttamannastraumurinn frá Úkraínu kunni að vera nágrannaríkjunum ofviða. 2.2 milljónir manna hafa leitað skjóls í nágrannaríkjum landsins.

Langflestir hafa leitað hælis í Póllandi en 200 þúsund í Ungverjalandi og 150 þúsund í Slóvakíu.

 Guterres hrósar fórnfýsi

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna þakkaði Andrzej Duda forseta Póllands fyrir fórnfýsi Pólverja í símtali.  

Aðalframkvæmdastjórinn sagði pólska forsetanum að Sameinuðu þjóðirnar myndu virkja allt kerfi samtakanna til stuðnings Pólverjum. Yrði það gert í samráði við UNHCR, Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, sem ber hitann og þunga af móttöku flóttamanna, að sögn Stéphane Dujarric, talsmanns samtakanna. 

Hann sagði að Guterres hefði þakkað „ótrúlega samstöðu og rausn“ nágrannaríkja Úkraínu.

4 milljónir flóttamanna

Aðalframkvæmdastjórinn hefur einnig rætt við Olaf Schultz kanslara Þýskalans og Josep Borrell utanríkisstjóra Evrópusambandsins.

Hjálparstofnanir Sameinuðu þjóðanna telja líklegt að þegar upp verður staðið muni 4 milljónir manna hafa flúið stríðsátökin eða 10% íbua Úkraínu.