COP27: Barátta upp á líf og dauða

0
334
COP27
Íbúar á suðurhluta Madagaskar glíma við þurrka. Mynd: OCHA/Viviane Rakotoarivony

Loftslagsbreytingar. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að mikið starf bíði næstu Loftslagsráðstefnu samtakanna. Ráðstefnan, sem gengur undir nafninu COP27 hefst í Egyptalandi í næsta mánuði, en undirbúningur er hafinn.

Aðalframkvæmdastjórinn, António Guterres, sagði að nú, þegar undirbúningsfundir væru hafnir í Kinshasa í Kongó, lægi ljóst fyrir að staðan hefði aldrei verið jafn alvarleg í loftslagsmálum.

Guterres ávarpar 77.Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
Guterres ávarpar 77.Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.

„Þriðjungur Pakistans hefur orðið flóðum að bráð. Sumarið í Evrópu var hið heitasta í 500 ár. Filippseyjar hafa skolfið og rafmagnslaust er á Kúbu. Og hér í Bandaríkjunum hefur fellibylurinn Ian minnt á það með skefjalausum hætti að ekkert ríki og ekkert hagkerfi er undanskilið frá loftslagskreppunni,“ sagði Guterres.

Hann bætti við að „á meðan loftslagsringulreiðin heldur áfram, hafa aðgerðir stöðvast.“

Guterres lagði áherslu á mikilvægi COP27, en varaði við því að sameiginlegum skuldbindingum G20 ríkjahópsins mætti lýsa með orðunum „of lítið og allt of seint.“

„Aðgerðir auðugustu ríkjanna og hagkerfanna upprennandi eru einfaldlega ekki nægar,““ sagði hann og benti á að með núverandi fyrirheitum og stefnumótun væri „hurðinni skellt“ á markmiðið um að halda hlýnun jarðar innan 2°C, að ekki sé minnst á 1.5°C markmiðið.

„Við eigum í baráttu upp á líf og dauða til að tryggja öryggi okkar í dag og bjarga lífi okkar á morgun.“