COVID-19 ekki lokið – 4 milljónir nú látist

0
768

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varar við því að heimsfaraldrinum sé „alls ekki lokið“ í yfirlýsingu í tilefni af því að nú hafa 4 milljónir látist úr COVID-19.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri bendir á í yfirlýsingu sinni að „þessi sorglega blóðtaka sé meir en íbúafjöldi þriðja hvers ríkis á jörðinni.“

„Veiran breiðist hraðar út en bóluefnið,“ segir Guterres.

„Faraldrinum er alls ekki lokið. Meir en helmingur dauðsfalla af völdum hans hefur orðið á þessu ári.“

„Ef faraldrinum er leyft að dreifa sér eins og skógareldur eru líf milljóna manna í hættu. Því meir sem hann dreifir sér, því fleiri afbrigði verða til. Afbrigði sem eru meira smitandi, banvænni og líklegri til að grafa undan virkni núverandi bóluefna.“

Guterres segir þörf á alheims bólusetningar-áætlun. „Jöfnuður í bólusetningum er brýnasta siðferðispróf okkar tíma. Þetta er einnig hrein nauðsyn. Allir eru í hættu, þar til allir eru bólusettir.“

Stærsta lýðheilsu-átak sögunnar

Í kjallaragrein í tilefni af fundi fjármálaráðherra svokallaðra G20 ríkja í Feneyjum skrifar aðalframkvæmdastjórinn að þótt 70% íbúa sumra þróaðra ríkja séu bólusettir sé hlutfallið innan við 1% í fátækum ríkjum. „Við þurfum ekki einn milljarða bóluefnis-skammta heldur að minnsta kosti ellefu milljarða til að bólusetja 70% heimsbyggðarinnar og binda þar með enda á faraldurinn. Gjafir og góður ásetningur nægir ekki til að tryggja að svo verði. Hér er þörf á stærsta átaki í lýðheilsu í sögunni.“