COVID-19: Getum ekki snúið aftur til óbreytts ástands

0
642
Antonío Guterres COVID-19

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir í kjallaragrein sem birtist fyrst í the Guardian og í Stundinni á Íslandi að COVID-19 hafi kennt heiminum þá lexíu að ekki sé hægt að snúa aftur til óbreytts ástands.

„Faraldurinn er okkur eins alvarleg áminning og hugsast getur um það háa gjald sem við greiðum fyrir veikburða heilbrigðiskerfi, félagslega vernd og opinbera þjónustu.” Greinin fylgir hér á eftir í heild:

Allir verða að leggjast á eitt til að uppræta faraldurinn

-eftir António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Heimsbyggðin getur einungis ráðið niðurlögum COVID-19 faraldursins og tekist á við afleiðingar hans með því að taka höndum saman. Á neyðarfundi með fjarfundarbúnaði á fimmtudag tóku leiðtogar 20 helstu iðnríkja heims skref í rétta átt. En við erum enn fjarri þeirri samhæfðu, snjölllu mótspyrnu á alheimsvísu sem þetta fordæmalausa ástand krefst.

COVID laboratory technician
Heimsbyggðin getur einungis ráðið niðurlögum COVID-19 faraldursins með því að taka höndum saman

Við höfum dregist aftur úr og ekki náð að fletja út smit-kúrvuna. 100 þúsund manns smituðust á fyrstu 67 dögunum en senn munu 100 þúsund eða fleiri smitast á dag. Án ákveðinna og kjarkmikilla aðgerða mun fjöldi nýrra tilfella vera talinn í milljónum með þeim afleiðingum að heilbrigðiskerfi kikna undan byrðinni. Hagkerfi myndu hrynja, fólk fyllast skelfingu og hinir fátækustu yrðu harðast úti.

Við verðum að búa okkur undir hið versta og gera okkar besta til að hindra að allt fari á versta veg. Hér er ákall um aðgerðir í þremur liðum sem byggir á vísindum, samstöðu og snjallri stefnumótun.

Í fyrsta lagi þarf að uppræta útbreiðslu kórónaveirunnar.

Það krefst öflugra og snemmbærra greininga og rakningu smits. Þessu ber að fylgja eftir með sóttkví, meðferð og aðgerðum til að tryggja öryggi framvarðasveita, auk samgöngu- og samskiptahindrana. Slíkar aðgerðir valda truflunum, en halda verður fast í þær þangað til lækningar og bólusetningar líta dagsins ljós.

Alþjóða heibrigðismálastofnunin, meðlimur í fjölskyldu Sameinuðu þjóðanna, ber að hafa forystu um þessar kröftugu aðgerðir í samvinnu við alla hlutaðeigandi. Ríkjum ber að sinna sínum þegnum en þau geta ekki gert allt upp á eigin spýtur.

Í öðru lagi verðum við að takast á við skelfilegar félagslegar- og efnahagslegar hliðar hamfaranna.

COVID-19 Guterres
Heimsmarkmiðin eru vegvísir okkar.

Veiran hefur breiðst út eins og sinueldur. Líklegt er að hún muni breiðast út um suðurhvel jarðar, en þar eru heilbrigðiskerfi veik, íbúarnir berskjaldaðri og milljónir búa í þéttbýlum fátækrahverfum eða þéttsetnum búðum uppflosnað fólks og flóttamanna.

Slíkar aðstæður eru gróðrastía fyrir veiruna sem gæti valdið þróunarríkjum miklum búsifjum og síðan breiðst þaðan út á ný til ríkja þar sem veiran hefði verið bæld niður. Í innbyrðis tengdum heimi okkar erum við aðeins jafn sterk og veikasta heilbrigðiskerfið.

Það er ljóst að við verðum að berjast við veiruna í nafni alls mannkyns og beina athyglinni að fólki, ekki síst þeim sem harðast verða úti: konur, eldra fólk, ungmenni, illa launað verkafólk, lítil og meðalstór fyrirtæki, óformlega hagkerfið og hópar sem standa höllum fæti.

Sameinuðu þjóðirnar hafa nýverið gefið út skýrslur þar sem gerð er úttekt á hversu miklum skakkaföllum efnahagur heimsins hefur orðið fyrir af völdum smitsjúkdómsins. Þar er tekin saman fjárþörfin til að takast á við áfallið. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur lýst yfir að kreppan nú sé álíka mikil eða verri og 2009.

Auka framlög til þróunarríkja

Við þurfum á heildstæðum fjölþjóðlegum viðbrögðum að halda að andvirði tveggja stafa prósentum af þjóðarframleiðslu.

Þróuð ríki eru einfær um að gera slíkt og sum hafa þegar gripið til slíkra aðgerða. En við verðum að auka umtalsvert fjárframlög sem standa þróunarríkjum til boða með því að styrkja Alþjóða gjaldeyrissjóðinn með útgáfu sérstakra dráttarréttinda auk annara alþjóðlegra fjármálastofnana. Með því móti væri hægt að koma þeim ríkjum til hjálpar sem þurfa skjóta innspýtingu.  Mér er ljóst að þetta er erfitt því ríki glíma við ærinn vanda heima fyrir og eru nú þegar að slá met í innlendum fjárveitingum. En þær fjárveitingar eru til einskis ef okkur tekst ekki að hafa stjórn á veirunni.

Samhæfð skipti á milli seðlabanka geta einnig fært ný-þróuðum hagkerfum lausafé. Skuldaeftirgjöf verður að vera forgangsatriði – þar á meðal tafaralaus eftirgjöf á vaxtagreiðslum fyrir 2020.

Í þriðja lagi endurreisn í breyttri mynd.

COVID 19 Guterres
Neðanjarðarlest í New York. UN Photo

Við getum einfaldlega ekki snúið aftur til þess ástands sem var áður en COVID-19 braust út, því mörg samfélög voru óþarflega berskjölduð. Faraldurinn er okkur eins alvarleg áminning og hugsast getur um það háa gjald sem við greiðum fyrir veikburða heilbrigðiskerfi, félagslega vernd og opinbera þjónustu. Hann er vatn á myllu ójöfnuðar, ekki síst kynbundins ójöfnuðar og hefur fært okkur heim sanninn um hvernig óformlega hagkerfið hefur þrifist í skjóli ósýnilegra og ólaunaðra umönnunarstarfa.  Hann hefur einnig orðið til þess að auka mannréttindabrot, þar á meðal fordóma gegn konum og kynbundið ofbeldi.

Nú er rétti tíminn til að tvíefla viðleitni okkar til að byggja upp sjálfbær hagkerfi og samfélög í þágu allra sem hafa þol til að standast hamfarir, loftslagsbreytingar og aðrar hnattrænar áskorunar. Endurreisnin verður að leiða til annars konar hagkerfis. Vegvísir okkar er Áætlun 2030 og Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun.

Sameinuðu þjóða-kerfið hefur verið virkjað að fullu til stuðnings innlendum aðgerðum ríkja. Við höfum lagt fram birgðaflutningagetu okkar og við höfum hvatt til vopnahlés um allan heim.

Það er bæði siðferðileg skylda og í þágu upplýstra eigin hagsmuna að binda enda á heimsfaraldurinn hvarvetna. Á þessum óvenjulegu tímum getum við ekki notað venjuleg úrræði. Við stöndum frammi fyrir tröllaukinni þolraun sem krefst ákveðinna, samhæfðra og skapandi aðgerða af allra hálfu, í þágu allra.