COVID-19: Guterres segir að heimurinn hafi fallið á siðferðisprófi

0
596
António Guterres

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í dag að eigingirni og vantraust hefðu grafið undan því vísindalega afreki sem þróun bóluefnis gegn COVID-19 hafi falið í sér.

Í ræðu sinni við upphaf 76. Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sagði hann að ein mynd segði„sögu okkar tíma.“

„Sú mynd sem við höfum séð frá nokkrum heimshornum af ónotuðu COVID-19 bóluefni – í ruslafötu. Útrunnið og ónotað. Annars vegar höfum við þá staðreynd að bóluefni var þróað á mettíma. Það var sigur vísinda og hugvits mannsins. Hins vegar höfum við horft upp á að sá árangur hefur fallið í skuggann af harmleik sem á sér rót í skorti á pólitískum vilja, eigingirni og vantrausti. Ofgnótt í sumum ríkjum. Tómar hillur í öðrum.“

Guterres benti á að í flestum ríkra landa væri meirihluti þegar bólusettur, en á sama tíma biðu 90% Afríkubúa eftir fyrsta skammti bóluefnisins.

„Þetta er siðferðilegur áfellisdómur yfir ástandi veraldar okkar. Þetta er skelfilegt. Við höfum staðist próf vísindanna, en við höfum fallið í siðfræði,“ sagði aðalframkvæmdastjórinn.

Í ræðu sinni fylgdi hann úr hlaði ársskýrslu sinni um starf samtakanna. Hann sagði að að heimurinn stæði frammi fyrir miklum áskorunum.

„Ég er hér til að hringja vekjaraklukkunni: Heimurinn verður að vakna. Við erum á barmi hengiflugs og höldum í vitlausa átt. Aldrei hefur heimurinn staðið frammi fyrir slíkri ógn. Og aldrei hefur meiri sundrung ríkt.“

Aðalframkvæmdastjórinn sagði að á sama tíma og COVID-19 faraldurinn hefði reynst olía á eld ójöfnuðar, herjaði lotslagsváin á veröldina. Vantraust og upplýsingaóreiða sundruðu fólki og lömuðu samfélög. Og á sama tíma ættu mannréttindi og vísindi undir högg að sækja.

„Aðstoð til þeirra sem eiga um sárast að binda kemur seint og illa, ef hún berst yfirleitt. Samstöðu skortir, einmitt þegar við þurfum mest á henni að halda,“ sagði Guterres.

Milljarðamæringar í geimferðum á meðan fólk sveltur

Hann vék sérstaklega að því vantrausti sem breitt hefði úr sér og sagði að vantraust gæti leitt til hruns gilda.

„Þegar fólk horfir upp á að fyrirheit um framfarir bregðast í daglegri lífsbaráttu. Þegar milljarðamæringar skreppa í skemmtiferðir út í geim á meðan milljónir manna svelta…. Við slíkar aðstæður missir fólkið sem við þjónum ekki aðeins trúa á ríkisstjórnum og stofnunum, heldur á þeim gildum sem starf Sameinuðu þjóðanna hefur byggt á í meir en 75 ár.“

Guterres sagði að ögurstund væri runnin upp og brýn þörf væri á að endurreisa traust og skapa von.

„Og ég er vongóður. Við höfum skapað vandamálin og við getum leystu þau,“ sagði Guterres í ræðu sinni.