COVID 19- Norski friðargæsluliðinn og götubörnin í Nepal

0
825
Nepal götubörn
Vibeke, Lucky og nokkrir götustrákanna í Khatmandu. Mynd: Vibeke.

Hvert áfallið á fætur öðru hefur dunið á Nepal undanfarin fimm ár. Árið 2015 skóku þrír tröllauknir jarðskjálftar ríkið og undanfarna mánuði hefur orðið að grípa til harkalegra aðgerða til að hindra útbreiðslu COVID-19.

2015 var norska konan Vibeke Andrea Sefland í fjallgöngu í Himalaja-fjöllum þegar fyrsti jarðskjálftinn varð. Nú rekur Sefland, sem er fyrrverandi friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna hæli fyrir götudrengi í Kathmandu.

Í Nepal eru átta af tíu hæstu fjallstindum í heimi. Vibeke Andrea Sefland, er höfuðsmaður í norska hernum og ein reyndasta kona í hópi fjallgöngumanna í heiminum. 2015 hafði hún nýlokið eins árs þjónustu fyrir Sameinuðu þjóðirnar sem eftirlitsmaður í Gólan-hæðum. Þá ákvað hún að taka sér leyfi til þess að láta gaman draum rætast: að klífa hæsta fjall veraldar: Everest.

26.apríl 2015 var hún og félagar hennar á jökli í rúmlega 6 kílómetra   hæð yfir sjávarmáli á milli fjallanna Everest, Lhotse og Nuptse þegar allt byrjaði að skjálfa.

„Fyrst heyrðum við snjóflóð falla af Everest. Þvi næst heyrði ég að því er ég hélt fyrst bergmál koma frá Nuptse, en það var rangt. Þetta var annað snjóflóð og bæði stefndu í áttina að mér,” sagði Vibeke í viðtali við UNRIC.

Hún vissi auðvitað ekki að jarðskjálfti væri orsök snjóflóðanna. Þau voru heppin. Snjóflóðið úr Everest hreif þau að vísu með sér en snjólagið var ekki þykkara en svo að þau gátu hrist það af sér. Aðrir voru ekki eins heppnir. 22 létust á eða við Everest þennan dag og meir en 100 slösuðust.

Lengst upp í fjöllum bárust Vibeke og félögum hennar engar fréttir af þeim skaða sem borgir og bæjir í Nepal urðu fyrir af völdum jarðskjálftanna. Nærri 9 þúsund týndu lífi og 22.300 slösuðust. Heilu þorpin voru lögð í rúst. Þrjár milljónir misstu heimli sín og 700 þúsund manns urðu fátækt að bráð.

„Við vorum þarna í okkar eigin heimi, við höfðum ekki hugmynd um hvað hafði gerst,“ rifjar Vibeke upp.

Í starfi fyrir Matvælastofnunina

Vibeke ákvað að vera um kyrrt í Nepal og hjálpa til við endurreisn landsins. Hún hafði gegnt stöðu höfuðsmanns í norska hernum og friðargæslusveitum um allan heim: Suður-Súdan, Líbanon, Tsjad, Kosovo, Írak og Sýrlandi. Hún hefur ferðast til meir en 80 ríkja og nú gat hún nýtt sér þá reynslu til að hjálpa Nepal og borgurum þess við endurreisnina eftir áfallið.

Innviðir afskekktra svæða í Nepal gjöreyðilögðust í þremur jarðskjálftum 2. og 26.apríl og 12. maí 2014. Vibeke starfaði við það á vegum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) að opna að nýju fjallaskarðið Larke við fjallið Manaslu á þeim slóðum þar sem upptök skjálftanna voru.

„Það þurfti einhvern til að opna skarðið að nýju en það er í 16700 feta (5.1 kílómetra) hæð yfir sjávarmáli. Þetta var nauðsynlegt því ég þurfti að flytja 62 þúsund tonn af matvælum um skarðið. Til verksins fékk ég 200 múldtuyr og 20 múldýraknapa,“ segir Vibeke.

Hún kom hjálparstöð á laggirnar í Helambu-héraði og aðstoðaði WFP við að greina þarfir íbúanna fyrir aðstoð. Í Helambu hitti hún Lucky, bóndason og náttúrudýrkanda sem vann fyrir World Wildlife Fund, og varð hann upp frá því trúfastur vinur hennar, leiðsögu- og aðstoðarmaður.

Lucky og götustrákarnir

Svo fór að Vibeke dvaldi í Nepal í hálft annað ár. Hún byggði skóla, útvegaði læknisaðstoð og dreifði birgðum. Eftirskjálftar voru svo öfuglir að hún varð oft að gista í tjaldi úti á hrísgrjónaökrum til að forðast hrynjandi byggingar.

Þegar ástandið færðist í eðlilegra horf uppgötvaði Vibeke hóp sem þurfti á hjálp að halda: götubörn í Kathmandu.

Talið er að það séu fimm þúsund götubörn í Nepal; flest strákar sem flúið hafa fátækt og ofbeldi heima fyrir. Á götunum sæta þeir stundum líkamlegu ofbeldi og kynferðislegri misnotkun og margir leita á náðir fíkniefna á borð við Dendrite-lím.

Árið 2016 opnaði hún ásamt Lucky hæli fyrir götudrengi á aldrinum 4-16 ára. Þeir eiga foreldra en geta ekki búið hjá þeim. Sænsku samtökin WeCare eru samstarfsaðilar þeirra en þau fjármagna einnig heimili fyrir stúlkur.

Nepal á tímum COVID-19

23.mars 2020 sendi Lucky Vibeke eftirfarandi skilaboð.

„Í dag kom ein manneskja smituð af kóróna til Nepal frá Frakklandi.“

Daginn eftir fyrirskipaði ríkisstjórn Nepals algjöra lokun samfélagsins sem síðan var framlengd til 14.júní.

Landamærin við Kína og Indland voru lokuð og öllu alþjóðlegu flugi aflýst. Skólum, líkamsræktarstöðvum og kvikmyndahúsum var lokað. Nú hafa 2300 smit verið greind og níu hafa látist af völdum kórónaveirunnar.

Talið er að efnahagslíf Nepals sem treystir mjög á tekjur af ferðamönnum verði fyrir alvarlegum skakkaföllum. Fjórðungur íbúanna er undir fátækramörkum og margir búa enn í bráðabirgðaskýlum á borð við þau sem Vibeke hjálpaði til við að reisa fyrir fimm árum.

Við þessar aðstæður er erfitt að fylgja öllum reglum stjórnvalda um COVID-19.

Í meir en tvo mánuði hafa strákarnir hennar Vibeke ekki stigið fæti út fyrir lóð hælisins. En ólíkt öðrum börnum gátu þeir klárað próf áður en skólar lokuðu. Að öðru leyti er líf þeirra eins og annara og ekki heyglum hent að halda áfram námi á meðan skólahald liggur niðri.

Aldrei hafa jafn mörg börn verið án kennslu og á meðan COVID-19 hefur geisað.

Strákar Vibeke hafa aðeins internetsamband á farsímum og eiga ekki sínar eigin kennslubækur. Þeir hafa ekki þann kost að læra á netinu.

Vibeke starfar nú sem leiðbeinandi í norska hernum. Vegna faraldursins getur hún ekki heimsótt strákana á hælinu. Þess í stað spjallar hún við þá á FaceTime nánast daglega.

„Ég sakna strákanna minna,“ segir Vibeke og sýnir myndbönd af þeim á símanum sínum þar sem þeir dansa og syngja. Á símanum hennar eru líka myndir af því svæði sem átta fyrrverandi götustrákar hafa þurft að deila síðan faraldurinn braust út: bakgarður, stofna, svefnhergi og þaksvalir.