Dag Hammarskjöld og friðargæsla Sameinuðu þjóðanna

0
409
Hammarskjold

 

18. september voru 50 ár liðin frá því Dag Hammarskjöld, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lést í flugslysi. Af því tilefni birti Morgunblaðið eftirfarandi grein eftir Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar:

Hammarskjold

Þegar Dag Hammarskjöld var skipaður framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna 7. apríl 1953 geysaði skefjalaust stríð á Kóreu-skaga og samtökin voru klofin á milli Austurs og Vesturs.  Sovétríkin sniðgengu Öryggisráðið til að andmæla því að nýja kommúnistastjórn Kína fengi ekki aðild að ráðinu. Það var síður en svo öruggt að Sameinuðu þjóðirnar yrðu árangursríkari en fyrirrennari þeirra, Þjóðabandalagið í að koma í veg fyrir að út brytist ný heimsstyrjöld.

Maðurinn sem tók þetta hlutverk að sér var á hinn bóginn sannfærður um að Sameinuðu þjóðirnar hefðu hlutverki að gegna í alþjóðlegri friðargæslu og í því að vernda hagsmuni valdaminni þjóða. Hann hafði líka tröllatrú á áhrifaríku starfi diplómata. Hann vissi að jafnvel áköfustu deilum lyki með pólitískri lausn og það væri hlutverk alþjóðlegra diplómata að greiða leiðina.

Það er ekki sjálfgefið að maður hugsjóna og grundvallaratriða sé einnig pragmatískur og skapandi. Þess vegna er Dag Hammarskjöld fólki um víða veröld enn uppspretta aðdáunar og innblásturs, fimmtíu árum eftir dauða hans. Hammarskjöld sameinaði býsna vel þessa þætti sem gætu virst andstæður. Oft er vitnað í þau orð hans að Sameinuðu þjóðirnar ættu að vera öflugt tæki í höndum aðildarríkja sinna en með þeim gerir hann í raun hugsjón úr verkhyggju.. Hammarskjöld áttaði sig á því að samtökin viðhéldu einungis þýðingu sinni með því að aðlagast stöðugt nýjum áskorunum.

Friðargæsla er sennilega besta dæmið um slíka aðlögun. Þegar Súes-deilan braust út árið 1956, voru engin ákvæði í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna um að beita hlutlausum, vopnuðum sveitum samtakanna til að stuðla að jafnvægi við viðkvæmar aðstæður. Enn eru engin slík ákvæði en þetta hefur engu að síður ekki komið í veg fyrir slíka beitingu. Hammarskjöld sá tækifæri en ekki farartálma í því að slík ákvæði skorti. Að tillögu Lesters Pearson, utanríkiráðherra Kanada, samdi hann grunnhugmyndina um friðargæslu og fylkti liði Alþjóðlegu neyðarsveitarinnar (United Nations Emergency Force (UNEF)) á aðeins nokkrum vikum. Það er til marks um visku Hammarskjölds að grundvallaratriði UNEF verkefnisins eru enn þann dag í dag þungamiðja allra sams konar aðgerða Sameinuðu þjóðanna. UNEF verkefnið var í raun holdgerfing verkhyggju og sköpunargleði Hammarskjölds.

Margt hefur breytt forsendum friðargæslu Sameinuðu þjóðánna í grundvallaratriðum frá því í Súes-deilunni. Við lok Kalda stríðsins blossuðu upp ýmis konar innanríkisdeilur á milli stríðandi pólítiskra eða trúarlegra fylkinga og þjóðarbrota. Spenna á milli blokkanna tveggja á heimsvísu hafði fram að þessu haldið þeim niðri. Hnattvæðingin og framþróun hvers kyns samskipta hafa svo minnkað allar fjarlægðir í tíma og rúmi. Með tilkomu ýmissa heimshlutasamtaka hafa orðið til stofnanir sem ýmist starfa við hlið eða bætast við  starf Sameinuðu þjóðanna. Þessar aðstæður hafa að sömu leyti gert friðargæslu Sameinuðu þjóðanna kleyft að skipta sér af fleiri tegundum átaka, en hafa einnig skapað ný vandamál.

Í dag eru gerendur mun fleiri og umfjöllunarefnin fjölskrúðugari. Frá lokum Kalda stríðsins hefur Atlantshafsbandalagið (NATO) leikið stórt hlutverk í aðgerðum á Balkanskaga, Mið-Austurlöndum og Afganistan. Evrópusambandið er í óðaönn að setja á stofn Utanríkisþjónustu sína í því skyni að auka diplómatískt afl sitt og pólítíska þýðingu. Arababandalagið og Afríkusambandið gegna mikilvægu hlutverki í Afríku. Í Asíu eykst samvinna aðildarríkja Sambands Suð-Austur Asíuríkja (ASEAN) stöðugt. Viðfangsefnunum fjölgar og nú má finna í verkfærakassanum auk hefðbundinnar friðargæslu, aðgerðir til að hindra átök og styðja nýskipan ríkja,  og efnahags- og stofnanalega þróun þeirra. Sameinuðu þjóðirnar eru einnig fremstar í flokki í að þróa alþjóðlegan lagaramma um annars vegar starfsreglur og vopnabeitingu og hins vegar um afleiðingar vopnaðra átaka.

Tvö tímamótarit hafa á undanförnum árum verið þungamiðjan í umræðum um þessar nýju áskoranir. Annars vegar Skýrsla nefndar um Friðargæslu SÞ eftir 2000 („Brahimi skýrslan“) og hins vegar samantekt aðalskrifstofu samtakanna „Friðargæsla SÞ 2009 við sjóndeildarhringinn“ („Nýju sjóndeildarhringja“ frumkvæðið).

Brahimi-nefndin benti á að friðargæsla fælist í sívaxandi mæli ekki í því að gæta friðar að loknum átökum heldur starfaði við þær aðstæður að ein eða fleiri stríðandi fylkinga væri ekki af neinni alvöru aðili að lausn átaka. Nefndin viðurkenndi því þörf sveita Sameinuðu þjóðanna fyrir að vera viðbúnar „að takast á við þau öfl sem valda stríði og ofbeldi“ og búa yfir „afli og áræði til að sigrast á þeim.“ Nefndin lagði áherslu á að hlutleysi aðgerða Sameinuðu þjóðanna yrði að felast í trúfestu við grundvallaratriði Stofnsáttmálans.

Í þeim tilfellum þar sem annar aðilinn bryti skefjalaust í bága við ákvæði Stofnsáttmálans, væri ekki hægt að halda áfram að láta eins og ekkert sé og láta deiluaðila sitja við sama borð. Slíkt gæti falið í sér að ganga erinda hins illa. Enn fremur skyldi skilgreina vald sveita til að beita valdi auk þess sem reglur um beitingu vopna skyldu vera rúmar til að hindra að friðarspillar nái frumkvæði.

„Nýju sjóndeildarhringja“ samantektin tók mið af auknu umfangi og margbreytileika friðargæsluverkefna Sameinuðu þjóðanna á nýju árþúsundi. Lögð var áhersla á nauðsyn þess að skapa öflugri pólitíska samstöðu, að taka gæði og hæfni friðargæslu fram yfir fjölda, bæta reikningsskil hagsmunaaðila friðargæslu Sameinuðu þjóðanna og þróa samhangandi áætlun fyrir stoðkerfi verkefna á vegum samtakanna.

 Brahimi-skýrslan og „Nýju sjóndeildarhringja“ samantektin voru í senn spor í rétta átt og virtu á sama tíma anda og bókstaf Stofnsáttmálans og ítrekuðu grundvallaratriði friðargæslu Sameinuðu þjóðanna. Í þessum skjölum er viðurkennt eins og Hammarskjöld gerði, að friðargæsla SÞ er ófullkomið en ómissandi tæki í höndum alþjóðasamfélagsins.

Aukinn fjöldi gerenda á alþjóðlegum vettvangi, og fleiri úrlausnarefni draga ekki úr hlut og mikilvægi Sameinuðu þjóðanna í friðargæslu. Þvert á móti, er þetta árétting á mikilvægi starfsins sjálfs og viðurkenning á því að mörgum ríkjum og staðbundnum aðilum rennur blóði til skyldunnar að axla ábyrgð á slíkum hnattrænum úrlausnarefnum sem friði og hindrun átaka. Hlutverk Sameinuðu þjóðanna verður ólíkt því sem það var á sjötta og sjöunda áratugnum en ekki síður mikilvægt. Sameinuðu þjóðirnar munu enn um sinn standa fyrir lögmæti nauðsynlegra aðgerða og samræma alþjóðleg viðbrögð við hnattrænum jafnt sem staðbundnum átökum. Sameinuðu þjóðirnar með allri sinni margbreytni munu eftir sem áður verða megin vettvangur alþjóðlegra samræðna um friðargæslu, hindrun og lausn deilna.

Sameinuðu þjóðirnar eru hornsteinn sænskrar utanríkisstefnu. Við og félagar okkar í Evrópusambandinu fögnuðum Brahimi-skýrslunni og styðjum af krafti frekari þróun „Nýju sjóndeildarhringja“ frumkvæðisins. Efla þarf og víkka út þau atriði sem samstaða hefur náðst um.

Í fyrsta lagi ber að viðurkenna mikilvægi þess að vernda óbreytta borgara. Sá árangur sem næst eða ekki næst í því að vernda óbreytta borgara hefur bein áhrif á trúverðugleika og lögmæti friðargæsluaðgerða Sameinuðu þjóðanna, auk stuðnings almennings á átakasvæðum. Það er hvatning að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna viðurkenndu þessar aðstæður á fundi Sérstöku nefndarinnar um friðargæsluverkefni Sameinuðu þjóðanna árið 2010. Sendisveitir þurfa á skýru umboði Öryggisráðsins að halda, vel ígrunduðum leiðarvísi, öflugri forystu og kerfisbsundnu aðhaldi og áræði til að hrinda þessu erfiða verekefni í framkvæmd.

Í öðru lagi skal brúa bilið á milli friðargæslu og friðaruppbyggingar. Friðargæsluliðar geta með stuðningi sínum og öryggi rutt brautina fyrir innlendri og alþjóðlegri viðleitni til að stuðla að langtíma friðaruppbyggingu á sviðum eins og löggæslu, stofnun réttarríkis, umbótum á öryggisgeiranum auk afvopnunar, upplausnar vígasveita og aðlögunar vígamanna að samfélaginu.

Í þriðja lagi eykst eftirspurn eftir sérfræði óbreyttra borgara á sviði réttarríkisins, dómskerfis og umbóta í öryggisgeiranum, sérstaklega í margflóknum friðargæsluverkefnum. Við þurfum að bregðast við þessu með því að efla framboð, þjálfun og stuðning starfsliðs óbreyttra borgara. Það er mikilvægt að ríki af suðurhveli hafi jöfn tækifæri til að útvega starfsfólk.

Í fjórða lagi ættum við að fylgja fordæmum rits Dags Hammarskjöld, Summary Study sem kom út fyrst 1958 og beina athygli okkar að Sameinuðu þjóða-kerfinu sjálfu og vinnuaðferðum okkar. Það er hvetjandi að sjá hve stuðningur hefur reynst mikill á meðal aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna við frumkvæðið um að hefja óformlegar málaleitanir með það fyrir augum að endurskoða vinnuaðferðir Sérstöku nefndarinnar en þessu var ýtt úr vör í forsætistíð Svíþjóðar í Evrópusambandinu 2009 og haldið áfram undir forystu Spánar 2010.

Að lokum skulum við minnast þess að Hammarskjöld helgaði sig fyrst og fremst þróun Sameinuðu þjóðanna. Hvort sem hann viðurkenndi það eða ekki, var hann hinn gæfuríki leiðsögumaður Sameinuðu þjóðanna í þessari vegferð.  Sú sýn Hammarskjölds að Sameinuðu þjóðirnar væru holdgerfingur „deiglu mannlegs samfélags“ og störfuðu „við hengiflug hins óþekkta“ er okkur enn innblástur.

    Carl Bildt, er utanríkisráðherra Svíþjóðar.