Dagur félagslegs réttlætis

Ban: Nýjan samfélagssáttmála fyrir 21. öldina

20. febrúar 2012. Alþjóðlegur dagur félagslegs réttlætis er haldinn 20. febrúar ár hvert. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur til nýs samfélagssáttmála í ávarpi sínu í tilefni dagsins:

aaIndversk börn. SÞ-mynd/John Isaac.Undanfarið ár hafa vindar breytinga leikið um jörðina. Milljónir þegna hafa látið rödd sína heyrast og alls staðar má heyra sömu umkvörtunarefnin: ójöfnuð, spillingu, kúgun og skort á almennilegri vinnu. Hvarvetna hefur fólk fylkt sér um kröfuna um félagslegt réttlæti.    

Takmarkið að koma á félagslegu réttlæti er í eðli skylt þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í ályktunum Félagsmálaráðstefnunnar í Kaupmannahöfn, Árþúsunda-leiðtogafundarins og víðar.     

Nú þegar Rio+20 Ráðstefnan um sjálfbæra þróun er framundan höfum við tækifæri til að huga að nýju að þróunaráætlunum og starfsháttum í atvinnulífi með það fyrir augum að laga þetta að sjálfbærari og réttlátari framtíð.  

Sjálfbærni næst með því að reisa markaði sem sinna betur því hlutverki að dreifa ágóða þróunar. Í þessu felst að svara óskum neytenda um grænnni vörur og þjónustu. Og í þessu felst að leggja hornstein að framtíð sem býður upp á reisn, stöðugleika og tækifæri fyrir alla. Í viðleitni okkar til að stuðla að þessari umbreytingu ber okkur að fella inn í stefnumið okkar og starf félagslega samheldni.  

Við skulum vinna saman að því að ná jafnvægi í hagkerfi heimsins og semja nýjan samfélags sáttmála fyrir 21. öldina. Við skulum semja vegvísi fyrir þróun í átt til meira félagslegs réttlætis í þeirri framtíð sem við viljum.

Ban Ki-moon