Dagur jarðar: Fljótandi vindmyllur – nýjung í hreinni orku

0
592
Vindorka
Mynd: Insung Yoon-unsplash

Dagur jarðar er kjörið tækifæri til að gefa sér tíma til að hugsa um nýja kosti í orkumálum og hreinni orku. Eitt slíkt dæmi eru fljótandi vindmyllur. Dagur jarðar er haldinn ár hvert 22.apríl.

Á degi móður jarðar er viðeigandi að fagna náttúrunni og fjölskrúðugu dýralífi, en ekki síður að leita lausna á þeim vanda sem notkun „svartra” orkugjafa á borð við olíu og kol hefur valdið.

Orkunotkun stendur fyrir 60% CO2

One world
Mynd: Markus Spiske/Unsplash

Að mati Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna er orkunotkun helsti orsakavaldur loftslagsbreytinga. 60% losunar allra gróðurhúsalofttegunda má rekja til orkunotkunar. Þrír milljarðar manna treysta á eldivið, kol, viðarkol eða úrgang dýra til eldamennsku og hita. Af þeim sökum er sjöunda Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun helgað því að „tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði .” Þar er gert ráð fyrir því að auka hlut endurnýjanlegrar orku í heiminum.

Einn af þeim endurnýjanlegu orkugjöfum sem sækja má til náttúrunnar er vindorka, en hana má ekki síður beisla á hafi úti en á landi. Auðvitað eru það fyrst og fremst ríki með langa strandlengju sem geta nýtt sér slíkt. Nú er kominn fram á sjónarsviðið nýr kostur sem auðveldar nýtingu vindsins: fljótandi vindmyllur.

Vindmyllur á hafi út

Vindmyllur á gulum akri
Mynd: Raimond Klavins-unsplash

Margar ástæður eru fyrir því að beisla vind á hafi úti. Vindmyllugarðar geta beislað meiri orku einfaldlega af því að vindhraði er meiri á hafinu. Önnur ástæða er andstaða gegn vindmyllum á landi. Þær þykja valda sjónmengun og margir vilja vindmyllur alls staðar annars staðar en í sínum eigin garði. En þeirri tækni sem býr að baki vindmyllum á sjó hefur fleygt fram undanfarið.

Hingað til hafa vindmyllur þurft á stoðum á sjávarbotni að halda og því hefur einungis verið hægt að staðsetja þær á grunnsævi, oftast nærri landi. Þetta hefur ekki valdið löndum á borð við Danmörku og Holland vandræðum af landfræðilegum ástæðum. Fyrsta vindorkubú Dana á hafi er nú orðið meir en þrjátíu ára.

Fjótandi vindmyllur þurfa hins vegar ekki að vera festar niður og því opnast miklir möguleikar. Hægt verður að koma þeim fyrir óháð dýpi.

 Skotland í fararbroddi

Hywind orkuverið.
Hywind orkuverið. Mynd: Lars Christopher-Flickr

Nú þegar eru þrjú fljótandi vindorkuver starfandi á hafi við strendur Skotlands og Portúgals.

Fyrsta fljótandi vindorkuverið leit dagsins ljós í Peterhead í Skotlandi 2017. Það byggir á norskri tækni. Hér er um að ræða fimm túrbínur með 30 MW framleiðslugetu. Hywind-verið hefur náð bestum árangri vindorkuvera á hafi þrjú ár í röð (til 2021) og var nýtingin 57.1% af framleiðslugetu.

Kincardine-verið í Aberdeen í Skotlandi var þriðja fljótandi vindorkuverið í sögunni. Það er hið stærsta í heimi, með sex túrbínur og  50 MW framleiðslugetu. Það sér nú 50 þúsund heimilum fyrir orku og getur orðið öðrum ríkjum fyrirmynd.

 Portúgalir framarlega

Vind túrbínur
Vind túrbínur. Mynd: Levan Badzgaradze-unsplash

Portúgalir telja mikla möguleika felast í fljótandi vindmyllum. WindFloat Atlantic utan við Viana do Castelo í Portúgal hóf rafmagnsframleiðslu í júlí 2020. Það er 25 MW fljótandi orkuver með þrjár Vestas túrbínur og getur séð 60 þúsund notendum fyrir orku. Ekki nóg með það heldur sparast losun 1.1 milljón tonna af koltvísýringi. Á fyrsta árinu nam framleiðslan 75 GWh.

Þessi þrjú vindorkuver eru frumherjar á ört vaxandi markaði. Þegar hefur verið sýnt fram á kosti fljótandi hreinnar orku. Búast má við að það sé tímaspursmál hvenær önnur ríki sigli í fótspor Skota og Portúgala. Meðal annars kunna miklir möguleikar að leynast í þessu fyrir Afríkuríki sem mörk hver búa yfir langri strandlengju.

Um Alþjóðlegan dag (móður) jarðar sjá hér.