Dularfulli blái bletturinn og gálgafrestur jöklanna

0
354
Snæfellsjökull
Mynd: Margrét Adamsdóttir Creative Commons Attribution 2.0

Loftslagsbreytingar. Parísarsamkomulagið. Jöklarnir hafa gefið Íslandi nafn og hvíta litinn í þjóðfánanum. En þeir gætu horfið að mestu innan tveggja alda. Allir nema þeir stærstu kunna þá að heyra sögunni til, að þeim stærsta undanskildum, að mati vísindamanna.

Í einni fyrstu og þekktustu vísindaskáldsögunni, Ferðin að miðju jarðar eftir Jules Verne er gáttin að hinni dularfullu jarðarmiðju í Snæfellsjökli – gamalli eldstöð.

Snæfellsjökull
Mynd: Anjali Kiggal
Creative Commons Attribution-Share Alike 4.0

Vísindamenn telja að lítið verði eftir af Snæfellsjökli um miðja þessa öld og hann hverfi með öllu fyrir lok aldarinnar og þar með gáttin að iðrum jarðar.

Í hinni 160 ára gömlu bók Jules Verne ferðast þýski vísindamaðurinn Otto Lidenbrock, Axel frændi hans og Hans leiðsögumaður í fótspor íslenska fræðaþularins Arne Saknussemm og halda inn í gangaop í jöklinum. Göngin leiða inn jökulprýdda eldstöðina og alla leiðina inn í miðju jarðar.

Snæfellsjökull
Mynd: JuTa. Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0

Eldvirkni hefur ekki raskað íshellunni á jöklinum, með gosi, síðan á 3.öld eftir Krist eða í 1750 ár. Nú er hlýnun jarðar hins vegar að bræða jökulinn.

Minnkað um 50%

„Hann mun hverfa fyrir lok aldarinnar,“ staðfestir Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir jöklafræðingur og virkur þátttakandi í starfi Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Raunar, mun jökullinn að stórum hluta hverfa fyrir miðja öldina, eða eftir örfáa áratugi.

Snæfellsjökull hefur minnkað um helming frá því í lok 19.aldar. Hann er nú 10 ferkílómetra stór og um 30 metra þykkur að meðaltali.

Snæfellsjökull
Tindu jökulsins. Axel Kristinsson
Creative Commons Attribution 2.0

„Nú er ekki nokkur vafi á því að loftslagsbreytingar af mannavöldum eru að auka hlýnun loftslagins, sem aftur veldur bráðnun jökla,“ segir Guðfinna í viðtali við vefsíðu UNRIC.

„Nú þegar hefur hitastigið hækkað frá því fyrir iðnbyltingu um 1.1 gráðu. Og Parísarsamkomulagið, sem við erum að reyna að halda fast í, kveður á um að halda hlýnun innan við 2 gráður en gera eigi allt sem við getum til að takmarka hlýnunin við 1.5 gráðu.“

Litli jöklar í mestri hættu

Smájöklar um víða veröld eru í meiri hættu en þeir stærri þegar hækkandi hitastig er annars vegar. Þeir íslensku eru engin undantekning. Minnsti jökullinn, Ok, er þegar horfinn. Hins vegar mun, Vatnajökull, stærsti jökull Íslands og Evrópu, einnig hverfa ef svo heldur fram sem horfir, þótt hann sýni meiri mótspyrnu.

Vatnajökull
Vatnajökull. Mynd: Zairon
Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0

„Ef Parísarsamkomulagið heldur þá má búast við því að 30-60% Vatnajökuls verði eftir um 2300, eða eftir tæpar tvær alder. Ef hlýnunin heldur áfram óbreytt og yrði 4 gráður yrði 0-30% eftir af jöklunum um 2300.”

Jöklar þekja um tíunda hluta Íslands eða um það bil 11 þúsund ferkílómetra. Bráðnun þeirra myndi hafa í för með sér 9 millmetra hækkun yfirborð sjávar í heiminum af völdum hlýnunar jarðar.

Hraðari bráðnun eftir 1994

Snæfellsjökull
Mynd: Martin Brechtl/Unsplash

Reyndar kemur það vísindamönnum ekki á óvart að jöklarnir bráðni. Hins vegar kemur það á óvart að þeir skuli ekki hörfa enn hraðar. Hitastig á Íslandi helst í hendur við hitastig sjávar. Og því hefur hækkun hitastigs í Norð-vestur Atlantshafi stuðlað að bráðnun jökla.

„Eftir 1994 hlýnaði mjög í sjónum við Ísland og allir jöklarnir fóru að hopa mjög hratt. En um 2010 gerðist eitthvað.”

Dularfulli blái bletturinn

Hægst hefur á bráðnun jökla. Það helst í hendur við myndun kalds hafsvæðis sunnan við Grænland, sem kalla má Bláa blettinn (The Blue blob). Kólnunin þar hefur dregið úr hlýnun andrúmsloftsins á Íslandi frá 2011 og dregið úr rýrnun jökla um allt að helming.

Snæfellsjökull
Blái bletturinn sést vel sunnan við Grænland.Mhynd: NASA

Blái bletturinn er einn af örfáum stöðum á plánetunni þar sem ekki hlýnar. Að auki ber að hafa í hug að Norðurslóðir hafa hlýnað fjórum sinnum hraðar en aðrir heimshlutar.

Orsakir myndunar Bláa blettsins eru ekki fyllilega ljósar og er frekari rannsókna þörf, en margt kemur þar við sögu, svo sem breytingar á hafstraumum og jafnvel bráðnun Grænlandsjökuls.

En hverju sem það sætir, er ljóst að gálgafresturinn verður ekki langur.

„Það er talið að þessi kólnun í Norður-Atlantshafinu haldi áfram þar til um miðja þessa öld, og haldi áfram að hindra að gengið sé á íslenska jökla í stórum stíl,” bendir Guðfinna á. „Jöklarnir hverfa svo hraðar eftir því sem kælandi áhrif Bláa blettsins í þessum heimshluta, dvína.”

Þessi unaðslega sýn”

Snæfellsjökull
Jökullinn séður úr Hallgrímskirkjuturni. Mynd: John Martin PERRY
Creative Commons Attribution-Share Alike 4.0

Fegurð Snæfellsjökuls er rómuð og laðar hann til sín tugi þúsunda ferðamanna, innlenda jafnt sem erlenda, á hverju ári. Jules Verne kom aldrei til Íslands, en hefur áreiðanlega kynnt sér verk leiðangurs Pauls Gaimard þremur áratugum áður en hann settist niður við

Snæfellsjökull
Teikning Edouards Riou úr bók Jules Verne.

ritun Ferðarinnar að miðju jarðar, 1864, en þar var útsýnið af jöklinum dásamað. „Ég sökkti mér þannig í þá stórkostlegu sæluvímu sem maður kemst í uppi á háum fjallstindi, en að þessu sinni fann ég ekki til svima því ég vandist loks þessari unaðslegu sýn,“ sagði sögumaðurinn í bók Verne í þýðingu Friðriks Rafnssonar.

Tindur jökulsins, 1,446 sést vel frá Reykjavík í 120 kílómetra fjarlægð.

Ef hlýnun jarðar heldur áfram munu borgarbúar hins vegar ekki lengur njóta fallegs endurskinsins frá drifhvítum jöklinum innan fárra áratuga.