Dollar street: þar sem staðalímyndir hrynja

0
473

Sænska baráttukonan Anna Rosling Rönnlund segir að persónulegt markmið hennar með starfi sínu hjá hinu fræga frumkvæði Rosling-fjölskyldunnar, Gapminder, sé að auðvelda fólki að skilja heiminn á myndrænan hátt.   

Það er einmitt hugmyndin að baki Dollar street nýju net-verkefni þar sem staðalímyndir af heiminum eru skoraðar á hólm.

Anna, eiginmaður hennar Ola Rosling, og tengdafaðirinn Hans Rosling eru kjarninn í Gapminder, sem er óháð sænsk stofnun sem hefur það að markmiði að “berjast gegn skaðlegum misskilningi um þróun heimsins með staðreynda-miðaðri heimssýn sem allir geta skilið.”

Læknirinn, samstarfsmaður hennar og tengdafaðir, Hans Rosling, er orðinn heimskunnur sem ræðumaður og er frægð hans ekki síst að þakka framúrkarandi myndrænni matreiðslu ýmissa starðreynda. Þetta er einmitt helsta hlutverk Önnu í starfi Gapminder hópsins, sem hefur unnið mikið með Sameinuðu þjóðunum, háskólasamfélaginu, ríkisstjórnum og almannasamtökum. Anna er sjálf heilinn á bakvið Dollar street verkefnið sem hóf göngu sína á netinu nú í október.

“Markmið okkar með Dollar Street er að gera öllum kleift að sjá hvernig fólk lifir raunverulega í heiminum,” segir Anna Rosling Rönnlund í samtali við Norræna fréttabréf UNRIC. “Við reynum að sjá í gegnum staðalímyndir og klisjur. Við vinnum úr tölfræði á þann hátt að enginn þarf að lesa talnarunur. Myndirnar leika hlutverk talnanna, ókeypis fyrir alla sem vilja nota og skoða.”

Dollar Street er netsíða þar sem safnað er myndum af heimilum um víða veröld. Sýnd eru 200 heimili í um 50 löndum eða í allt 30 þúsund ljósmyndir og 10 þúsund myndbönd af heimilum.

Hún segir að þetta verkefni eigi erindi við Sameinuðu þjóðirnar sem samþykktu Áætlun 2030 um sjálfbæra þróun fyrir ári.

“Maður þarf að sjá samhengið til að skilja Sjálfbæru þróunarmarkmiðin,” segir Anna. “Maður verður að skilja hversdagslegan raunveruleika fólks um allan heim. Það er hlutverk Dollar street.”
 
Kennarar geta notað myndræna framsetningu síðunnar og Gapfinder lítur á verkefnið sem tilboð um samvinnu við ljósmyndara og kennara um allan heim

Hugmyndin að baka i Dollar street er þessi: “Ímyndum okkur heiminn sem íbúðagötu. Heimilum er raðað eftir tekjum, hinir fátæku vinstra megin og hinir ríku hægra megin. Allir aðrir eru einhvers staðar þar á milli. Hvar myndir þú búa? Myndi líf þitt vera ólíkt lífi nágranna þíns annars staðar að úr heiminum, sem hefur svipaðar tekjur og þú?”

“Hugmyndin um Dollar street fæddist fyrir 16 árum þegar ég var að læra ljósmyndun og félagsfræði,” segir Anna. “Ég hafði ekki ferðast sérstaklega víða og þótt ég skoðaði tölur, hafði ég litla hugmynd um líf fólks með mismunandi tekjur. Hvers konar salerni notar fólk eftir því hversu mikið það hefur handa á milli? Með því að nota ljósmyndir getum við svarað þessu – án þess að ferðast.”

 Fréttir fjalla ekki – af augjósum ástæðum –  um hið venjulega. Fréttamenn leita að hinu óvenjulega og einstaka.

“Við sjáum stríð, náttúruhamfarir, farsóttir, flóttamenn, spillingu, skítin dýr, strendur í paradís og litríka þjóðflokka. Allt þetta er einstakt! Það er engu líkara en ekkert venjulegt fólk og ekkert venjulegt líf þrífist í öðrum löndum.”

Ein af niðurstöðum verkefnisins er að menningarlegur munur fólks sem hefur álíka tekjur er í raun mjög lítill þótt fólk búi á mismunandi stöðum í heiminum.

 “Meðaltöl um einstök ríki eru villandi. Munurinn innan ríkja er stundum gríðarlega mikill. En það er líka villandi að tala um bilið á milli hinna ríkustu og hinna fátækustu því langflestir eru í miðjunni.”

Til að koma þessu til skila reynir Dollar street að sýna hið ósýnilega; yfirlit um fjölskyldur með mismiklar tekjur og með því að sýna myndir af daglegu lífi og hvernig fólk á mismunandi tekjum fer að því að hafa í sig og á og sinna sammannlegum þörfum.

Og niðurstaðan er sem sé sú að langflestir íbúa heims séu hvorki ríkir né fátækir heldur einhvers staðar þar á milli. Þá er ljóst af Dollar street að efnislegar væntingar kristinna og múslima eru mjög svipaðar.

Sama má segja um norður-suður skiptinguna. Ríkir Afríkubúar og Mexíkóar lifa á svipaðan hátt og nágrannar þeirra í norðri, sem hafa svipaðar tekjur. Sama á við austur-vestur: neysla Asíubúar er svipuð Vesturlandabúum ef þeir hafa efni á því –allir vilja sofa í mjúku rúmi.

“Fólk á ólíkum meginlöndum sem hefur svipaðar tekjur eru nágrannar á Dollar street. Lifnaðarhættir fólks með sömu tekjur eru oft ótrúlega líkar,” segir Anna Rosling Rönnlund.