Dropi fyrir dropa á Grænu vikunni

0
422

Ida Auken Green week

22. maí 2012 – Dropi fyrir dropa herferðin er á meðal þrjú þúsund sýnenda á Grænu vikunni sem er hafin í höfuðstöðvum Evrópusambandsins í Brussel.
Þrjátíu auglýsingar sem komust í úrslit Dropa fyrir dropa auglýsingasamkeppninnar eru til sýnis í fyrsta sinn á Grænu vikunni. Þar fer fram umfangsmesta ráðstefna um umhverfismál í Evrópusambandinu. Þema vikunnar eins og í auglýsingakeppni Sameinuðu þjóðanna er Vatn. Kjörorð grænu vikunnar er “Vatnsáskorunin – hver dropi skiptir máli.”
Við opnun Grænu vikunnar talaði Ida Auken, umhverfisráðherra Danmerkur fyrir hönd forsætis Evrópusambandsins en þar sitja Danir um þessar mundir. Hún sagði að ef ekki væri að gert myndi ferskvatnsneysla mannkyns verða 40% meiri en framboð árið 2030 en á sama tíma myndi helmingur mannkyns búa á svæðum þar sem vatnsskortur væri landlægur.   

Vatn er eitt af þeim málefnum sem verða í brennidepli á Rio + 20 ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um Sjálfbæra þróun í júní. Auken var heldur svartsýn þegar hún ræddi horfurnar á ráðstefnunni og sagði að Evrópusambandið virtist “vera býsna eitt á báti með að koma til ráðstefnunnar með metnað að leiðarljósi.”

Ein af þeim lausnum sem hún benti á var að með því að hindra leka í vatnsveitum borga mætti spara milljarða dollara um allan heim.
“Þegar við þetta bætist að jafnvel í þróuðum heimshlutum eins og Evrópusambandsríkjunum fer 20 til 40% af vatni sem aflað er til spillis. Þarna er pottur brotinn,” sagði Auken. “Evrópusambandsríkin eru leiðandi í vatnstækni, en jafnvel innan ESB er hægt að gera betur.”

Í nýrri skoðanakönnun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins reyndust sjö af hverjum tíu ESB borgurum telja að vatnstengd vandamál séu alvarlegt áhyggjuefni.
Hér má sjá nánari upplýsingar um Grænu vikuna:
http://ec.europa.eu/environment/greenweek/