Dvínandi vonir um pólitíska lausn í Darfur

0
478

16. apríl  2008 – Vonir um að pólítisk lausn finnist á ástandinu í Darfur fara dvínandi enda virðast bæði súdanski stjórnaherinn og skæruliðar ákveðnir í því að láta reyna á hernaðarlega lausn. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem gefin var út í dag.  

UNAMID, sameiginleg sveit Afríkusambandsins og Sameinuðu þjóðanna í Darfur er ekki enn hálfmönnuð þremur mánuðum eftir að hún tók til starfa og ekkert ríki hefur getað séð af þyrlum til sveitarinnar.

Á sama tíma glímir UNAMID sameiginleg friðargæslusveit Afríkusambandsins og Sameinuðu þjóðanna við tröllaukinn vanda. Ekki hefur tekist að fá nægilegan fjölda hermanna í sveitina og mikill skortur á þyrlum, hvers kyns samgöngutækjum og öðrum búnaði stendur starfi sveitarinnar fyrir þrifum. Tvö hundruð þúsund manns hafa látist í Darfur og 2.5 milljónir manna flosnað upp frá heimkynnum sínum frá því að átök brutust út fyrir fimm arum. 
“Ég er mjög vonsvikinn yfir því að hvorki gengur né rekur,” segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í skýrslunni sem fjallar um starf UNAMID, fyrstu þrjá mánuði ársins.  
“Deilendur virðast staðráðnir í að reyna að ná hernaðarlegum árangri; friðarferlið hefur stöðvast; hægt gengur að hefja starfsemi UNAMID og mörg ljón eru þar á veginum og mannúðarástandið er ekki að batna.” 
Ban sakar deilendur beggja megin víglínunnar um skort á pólitískum árangri og segir að ef nauðsynlegur vilji hefði verið fyrir hendi, hefði verið hægt að koma á vopnahléi og koma fótum undir starf UNAMID með samvinnu allra aðila og hefja samningaviðræður. 
UNAMID var sett á stofn í lok síðasta árs og var ætlað að tuttugu og sex þúsund her- og lögreglumenn tækju við af vanmannaðri og illa búinn sveit Afríkusambandsins. Enn eru aðeins 10.600 komnir til starfa, þar af fjórtán hundruð óbreyttir borgarar.  
Ban hvatti aðildarríkin til að standa við fyrirheit um að skapa UNAMID skilyrði til að geta gegnt hlutverki sínu, til að reyna að stilla til friðar og bæta líf íbúanna.
“Sérstaklega verður að tryggja flugsamgöngur og nægilegan herafla.”