Efnavopn í öruggum norrænum höndum

0
410

Smooth sailing RESIZED

19.febrúar 2014. Danir, Norðmenn og Finnar hafa tekið höndum saman í starfi Sameinuðu þjóðanna  við að flytja efnavopn frá Sýrlandi. Efnavopnaárásir á óbreytta borgara í Sýrlandi vöktu óhug heimsbyggðarinnar og í kjölfarið samþykkti Sýrlands-stjórn að afhenda og láta eyða efnavopnum sínum. Efnavopnin verða flutt frá Latakia-höfn í Sýrlandi til hafnar á Ítalíu. Þar verða þau flutt um borð í bandaríska herskipið Cape Ray, en um borð er búnaður til að eyða efnavopnum á hafi úti. Dönum og Norðmönnum barst liðsauki finnskra sérfræðinga um miðjan desember en þeir munu starfa um borð í dönsku skipi.

Verkið átti að vinna fyrir árslok á síðasta ári en harðnandi átök, erfiðleikar við flutninga landleiðina og slæmt veður hafa tafið aðgerðir.

Danir eru í forystu verkefnisins en Norðmenn eru næstráðendur. Auk Dana, Norðmanna og Finna, hafa Kínverjar og Rússar lagt til herskipin Pétur Mikla og Yan Cheng.

Friðarverðlaunahafar Nóbels frá síðasta ári Samtökin um bann við efnavopnum (Organisation for the Prohibition of Chemical Weapons (OPCW)) hafa yfirumsjón með pökkun og flutningum efnanna í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar.

Eskil Grendahl Sivertsen,háttsettur ráðgjafi í norska varnarmálaráðuneytinu segir að norræna samstarfið hafi gengið vel. “Noregur og Danmörk eru í NATO og starfa því í stórum dráttum á sama hátt á ýmsum sviðum. Við höfum svipaðan skilning á verkinu og hvernig skuli framkvæma það.” Tungumál og menning eru af svipuðum toga í nágrannaríkjunum og greiða fyrir samstarfi. Að auki hafa norrænu ríkin unnið saman í ýmsum hernaðarverkefnum, til dæmis í ISAF í Afganistan.

Um verkefnið í Sýrlandi segir Sivertsen að efnin sem samansett mynda efnavopn, séu flutt í sérbyggðum gámum. Frá hernaðarlegu sjónarmið er þetta ekki flókið.”Við búum yfir nútíma freigátu undir stjórn hæfs starfsfólks. Freigátunni er ætlað að vera fylgdarskip og við höfum fengið talsverða reynslu af slíku, meðal annars úr starfi okkar undan Austurodda Afríku.”

Børge Brende utanríkisráðherra Noregs og Rasmus Helveg Petersen, þáverandi utanríkisráðherra Dana lýstu sameiginlegum vilja til að taka að sér verkefnið í yfirlýsingu, og tóku fram að “notkun efnavopna væri ógnun við alþjóðlegan frið og öryggi. Það er á meðal höfuðverkefna alþjóða samfélagsins að fjarlægja þess skelfilegu vopn frá Sýrlandi.” Ráðherrarnir hvöttu önnur aðildarríki til að leggja sameiginlegu verkefni OPCW og SÞ, lið.

Siversten segir að mesti vandinn sé sá að halda áætlun. 31.janúar höfðu tveir skipsfarmar af efnum verið fluttir. Ahmet Üzümcü, forstjóri OPCW sagði í fréttatilkynningu að það væri “augljóst að flýta þyrfti verkinu.” 

Þrátt fyrir þann vanda sem við er að glíma eru samstarfsaðilarnir ákveðnir í að vinna verkið vel. “Það er á okkar ábyrgð að stíga skref í átt til öruggari heims og leggja okkar af mörkum þegar Sameinuðu þjóðirnar fara þess á leit. Það er þýðingarmikið og mikilvægt að fjarlægja efnin frá Sýrlandi,” segir Sivertsen.

10.febrúar fór þriðji efnafarmurinn frá Sýrlandi. Farmurinn er um borð í norsku flutningaskipi en því fylgja skip frá Kína, Danmörku, Noregi og Rússlandi.

(Fyrst birt í norræna fréttabréfi UNRIC, 19.febrúar 2014).