„Eins og að garnirnar séu raktar úr þér!“

0
510

jazz UN2 landscape

Apríl 2013. Alþjóða djassdagurinn er haldinn í annað skipti 30. Apríl.

Að þessu sinni verður Istanbul í Tyrklandi alþjóðleg djasshöfuðborg í tilefni dagsins en haldið verður upp á daginn í meir en 100 löndum, þar á meðal á Íslandi og öllum Norðurlöndunum. 

 Það er UNESCO, Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna sem stendur fyrir djassdeginum en honum er ætlað að efla vitund um það hlutverk sem djass getur leikið í menntun og sem afls í þágu friðar, einingar, samræðna og aukinnar samvinnu á milli þjóða. Við hátíðahöldin í Istanbul koma fram listamenn á borð við sérstakan sendiherra UNESCO, Herbie Hancock, Wayne Shorter, John Beasley, George Duke, Abdullah Ibrahim, Al Jarreau, Milton Nascimento, Dianne Reeves, Marcus Miller, John McLaughlin, Lee Ritenour og Jean-Luc Ponty.

JazzByggt er á árangri fyrsta alþjóðlega djassdagsins sem haldinn var á síðasta ári en þá ruddu djassgeggjarar veraldarleiðtogum og stjórnarerindrekum út úr þingsal Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York og slógu upp sannkallaðri djassveislu.

„Góður andi baksviðs“

Íslendingurinn Jón Ingi Herbertsson heldur utan um Friðflytjendastarf Sameinuðu þjóðanna og í hans hlut kom að fylgja stórstjörnunni Stevie Wonder á hátíðina. Jón Ingi segir að fyrsti alþjóða djassdagurinn hafi verið ógleymanlegur og þá ekki síst að sjá þrjá fimmtu af hinum sögufræga seinni kvintett Miles Davis leika saman á ný, en Herbie Hancock, Wayne Shorter og Ron Carter léku við hvern sinn fingur á sviði Allsherjarþingsins.

„Kannski var eftirminnilegast sá góði andi sem var baksviðs,“ segir Jón Ingi. „Þarna voru öll helstu nöfn djassins samankomin á einum stað og auk þess leikarar á borð við Michael Douglas, Robert DeNiro og Morgan Freeman. Öllum var troðið inn í lítið herbergi fyrir aftan þingsalinn og þarna sátu menn nánast í fanginu hver á öðrum, skiptust á sögum og hlógu!“

Danski saxafónleikarinn Benjamin Koppel segir engan vafa leika á því að tónlist stuðli almennt að því að efla vináttutengsl þvert á landamæri, „ en galdur tónlistarinnar felur í sér áskorun og ýtir undir hæfni okkar til að nálgast hið ókunna, að taka því tveimur höndum sem virðist undarlegt og framandi og búa okkur sem mannlegar verur undir að mæta hinu óvænta.“

Eins og allir vita á djassinn rætur að rekja til Bandaríkjanna en þar óx hann upp af afrískum rótum í byrjun tuttugustu aldar en sótti líka efnivið í evrópsk tónlistarform.
Djassinn varð mjög snemma vinsæll á Norðurlöndum og þau státa af framúrskarandi tónlistarmönnum sem sett hafa sinn svip á djassinn undanfarna áratugi. Nefna má Danina Niels-Henning Örsted Pedersen og Palle Mikkelborg; Norðmennina Jan Garbarek og Terje Rypdal og Svíann Esbjörn heitinn Svensson. Landar okkar í Mezzoforte áttu svo kannski stærsta smellinn sem rætur á að rekja til djassins þegar bræðingslagið Garden Party tröllreið öllu á níunda áratugnum.

Amerískar stjörnur lyftistöng

 “Ein af ástæðum þess að Norðurlönd státa af góðum djass er sá opinberi stuðningur sem þessi tónlistargrein hefur notið,“ segir Eyþór Gunnarsson, höfundur Garðveislunnar. “En ég er líka viss um að það hafði mikil áhrif að þekktir amerískir djassleikarar settust að á Norðurlöndum á sjöunda og áttunda áratugnum og ungir tónlistarmenn á borð við Niels-Henning Örsted Pedersen fengu tækifæri til að spila með úrvalsliðinu. Þetta var norrænum djassi áreiðanlega lyftistöng.“ 

Bandarískir djassleikarar á borð við Dexter Gordon, Ben Webster og Kenny Drew bjuggu um lengri eða skemmri hríð í Kaupmannahöfn og löðuðu að sér kunningja úr framvarðasveit djassins.

image 16 9 biggerCaroline Henderson, er hálf sænsk – hálf bandarísk djasssöngkona sem býr í Kaupmannahöfn. Hún var fulltrúi norræna djassins á Nordic Cool menningarhátíðinni í Washington fyrr á þessu ári.
Faðir hennar settist að í Evrópu á sjötta áratugnum til að leika tónlist og lifa frjálsara lífi en hægt varí Bandaríkjunum á þeim tíma.
„Djassinn er auðvitað upprunninn í Bandaríkjunum en við höfum tekið honum tveimur höndum á Norðurlöndum og blandað í hann okkar eigin bláu tónum; svolítilli heimatilbúinni angurværð og mikilli sköpunargleði,“ sagði Henderson í viðtali við vefsíðu Norðurlandasamstarfsins, Norden.org.

Norrænn tónn?

Eyþór Gunnarsson er þó ekkert of viss um að hægt sé að greina einhvern sérstakan norrænan djasstón. „Það rímar kannski ekki við almannaróm en Norðmenn eru einna framsæknastir og hika ekki við tilraunastarfsemi á meðan Danir eru hefðbundnari í nálgun sinni,“ segir Eyþór sem hefur nýlokið við upptökur með Benjamin Koppel sem um tíma var tónlistarstjóri Montmartre, hins rómaða djassklúbbs í Kaupmannahöfn. Koppel segir að það sé áreiðanlega til norræn nálgun á tónlist.  „Við erum öll afurð uppeldisins, umhverfisins og arfleifðarinnar .og þessi áhrif móta listræna tjáningu okkar.“ 

„Það er alveg sama hvað Norðurlandabúar sjálfir segja,“ segir hins vegar breska útvarpskonan Fiona Talkington á Radio 3 sem hefur kynnt norrænan djass í þáttum sínum. „Ég skynja í norræna djassinum naumhyggju sem mér finnst nánast ávanabindandi. Það er einhver hógværð þarna jafnvel þegar allt er á fullri ferð,“ sagði hún í viðtali við breska blaðið the Indpendent. 

Spurð að því hvort hinn þekkti ískaldi og innhverfi tónn norska saxafónleikarans Jans Garbarek væri hinn dæmigerði norræni tónn sagði hún að það væri af og frá: „Sumt af því mest hressandi í norskri tónlist er þegar manni finnst að það sé verið að skera mann á hol og rífa út úr manni garnirnar!“

Alþjóða djassdagurinn verður haldinn á öllum Norðurlöndunum og um allan heim 30.apríl. Sjá nánar hér. Á Íslandi verður haldið upp á alþjóðlega djassdaginn í Hörpu 30. apríl í samvinnu við Íslenska djassleikara og fræðimenn og verður sjónum beint að mikilvægi djassins í menningarsögu og menntun. (Sjá nánar hér).

Myndir:
Terence Blanchard blæs í trompettinn á djassdaginn 2012. (SÞ/Devra Berkowitz).
Jón Ingi Herbertsson (til vinstri) ásamt Herbie Hancock.
Caroline Henderson á Nordic Cool hátíðinni í Washington DC (Teddy Wolff/Norden.org)