Einum misskilningi frá tortímingu

0
758
Samningur um bann við kjarnorkuvopnum
Mynd af Hiroshima eftir kjarnorkuárásina 1945.

Ráðstefna aðila samnings um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna kemur saman til fundar í janúar á næsta ári, 2022. Þessi ráðstefna er haldin á fimm ára fresti til að fara yfir stöðuna í þessum málaflokki.

Í greininni sem fylgir hér á eftir færir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna rök fyrir því að hætta á kjarnorkustríði hafi ekki verið meiri frá lokum Kalda stríðsins.

Einum misskilningi frá tortímingu

-eftir António Guterres

Við lifum á viðsjárverðum tímum. Heimurinn hefur aldrei á minni æfi verið undir jafnmiklu álagi og nú þegar loftslagsváin, sláandi ójöfnuður, blóðug átök og mannréttindabrot eru samfara þeim mikla persónulega og efnahagslega skaða sem COVID-19 hefur valdið.

António Guterres

Allt þetta hefur skyggt á þá vá sem einkenndi fyrri hluta æfi minnar: kjarnorkuvána. Hún fær ekki lengur þá athygli sem hún á skilið. Kjarnorkuvopn eru ekki lengur í fyrirsögnum og handritum Hollywood. En hættan er jafnmikil og hún var og eykst ár frá ári. Kjarnorkuvopn eru Damoklesar-sverð og geta ekki aðeins valdið ótrúlega miklum þjáningum og dauða, heldur útrýmingu alls lífs á jörðunni. Við erum enn aðeins einum misskilningi eða misreikningi frá tortímingu.

Treyst á heppnina

Kjarnorkuvopnum hefur ekki verið beitt, þökk sé samblandi af heppni og dómgreind, frá því þau brenndu Hiroshima og Nagasaki til grunna 1945. En hversu lengi getum við treyst á heppnina þegar 13 þúsund kjarnorkuvopn eru í vopnabúrum heimsins? COVID-19 hefur fært okkur heim sanninn um þær hamfarir sem fylgt geta atburði, sem samkvæmt líkindum átti vart að geta gerst.

Við lok Kalda stríðsins voru kjarnorkuvopnabúr skorin verulega niður og þeim jafnvel eytt. Heilu heimshlutarnir lýstu sig kjarnorkuvopnalausa. Djúpstæð og útbreitt andúð var á kjarnorkuvopnatilraunum. Þegar ég var forsætisráðherra Portúgals skipaði ég svo fyrir að land mitt greiddi atkvæði í fyrsta skipti gegn endurupptöku kjarnorkutilrauna á Kyrrahafi.

En lok Kalda stríðsins skildu líka eftir þann skaðlega misskilning að kjarnorkuógnin væri fyrir bí.

Hættan fer sívaxandi

Fyrsta tilraunin með kjarnorkuvopn

Þetta er alrangt. Þessi vopn eru ekki vandi fortíðarinnar. Hætta stafar af þeim enn þann dag í dag og hún fer vaxandi.

Hættan á að kjarnorkuvopnum verði beitt er meiri nú en nokkru sinni frá dögum Kalda stríðsins.

Samskipti kjarnorkuvelda í dag einkennast af tortryggni og samkeppni. Lítið er um samræðu. Gegnsæi fer minnkandi og hlutur kjarnorkuvopna í þjóðaröryggis-áætlunum fer stækkandi.

Á sama tíma fleytir tækninni fram. Samkeppni fer sívaxandi á nýjum sviðum svo sem í net- og tölvuheiminum og í geimnum. Brestir hafa birst og hætta á stigmögnun sem gæti leitt til kjarnorkustríðs hefur magnast. Við höfum engan alþjóðlegan ramma eða tæki og tól til að ná utan um þessa þróun. Í fjölpóla heimi dagsins í dag gæti staðbundin kreppa í einum heimshluta með kjarnorkuvopna-ívafi sogað til sín önnur kjarnorkuveldi.

Eitt slys

Kjarnorkulandslagið er eins og eldspýtnastokkur. Eitt slys eða misreikningur gæti orðið til að hann fuðri upp.

Kjarnorkuflaug. Creative Commons Attribution 2.0

Helsta von okkar um að snúa við þessari þróun og stýra heiminum frá hengiflugi kjarnorku-hamfara er Alþjóðlegur samningur um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. NPT-samningurinn, (Non-Proliferation of Nuclear Weapons) eins og hann er oft kallaður, er frá árinu 1970 þegar fimbulvetur ríkti í köldu stríði.

NPT er ein helsta ástæða þess að kjarnorkuvopnum hefur ekki verið beitt frá 1945. Í honum felast lagalega bindandi skuldbindingar um kjarnorkuafvopnun. Fimm stærstu kjarnorkuveldin eiga aðild að samningnum. Hann er aflvaki afvopnunar sem er eina leið til að tryggja að þessum vopnum verði eytt í eitt skipti fyrir öll.

191 ríki hafa skrifað undir NPT eða langflest ríki heims. Þau hafa heitið að hvorki eignast né þróa kjarnorkuvopn. Alþjóða kjarnorkumálastofnunin fylgist með því að ríki standi við þessi fyrirheit.

Enn ein skammstöfunin?

Í næsta mánuði munu aðildarríki NPT hittast að máli á ráðstefnu sem haldin er á fimm ára fresti til að taka saman hvaða árangur náðst hefur.

Kjarnorkuflaugar á safni. Creative Commons Attribution 3.0

Kannski þykir enn ein ráðstefna Sameinuðu þjóðanna og enn ein skammstöfunin ekki sérstaklega fréttnæm. En NPT er lykill að öryggi og velmegun allra jarðarbúa.

Okkur ber að grípa það tækifæri sem felst í NPT ráðstefnunni í janúar til að snúa við hættulegum og vaxandi tilneigingum og losna undan löngum skugga þessara ómannúðlegu vopna.

Ráðstefnan þarf að grípa til djarfra ákvarðana á sex sviðum:

  • Draga upp vegvísi í átt til kjarnorku-afvopnunar.
  • Samþykkja nýjar aðgerðir til að tryggja gegnsæi og samræðu til að minnka hættu á kjarnorkustríði.
  • Að fjalla um kraumandi kjarnorkukreppu í Mið-Austurlöndum og Asíu.
  • Að efla friðsamlega nýtingu kjarnorku í þágu læknavísinda og fleiri þátta.
  • Styrkja jafnframt alþjóðlegt regluverk gegn útbreiðslu kjarnorkuvopna, þar á meðal Alþjóða kjarnorkumálastofnunina.
  • Og minna á fólk um allan heim, sérstaklega ungu kynslóðinaa á, að útrýming kjarnorkuvopna er eina leiðin til að sjá til að þau verði aldrei notuð.

Kjarnorkuvopn ógna öllum

Ég hvet ríkisstjórnir til að koma til ráðstefnunnar með anda samstöðu, opinskárrar samræðu og sveigjanleika að vopni.

Það sem gerist í fundaherbergjum á NPT ráðstefnunni í janúar skiptir alla máli, einfaldlega vegna þess að kjarnorkuvopn ógna öllum.

Okkur hefur aldrei verið ljósara hversu brothættur heimur okkar er.

Ég vona að hvarvetna muni fólk ýta á ríkisstjórnir sínar til þess að við hopum frá brún hengiflugsins og sköpum öruggari heim fyrir alla: kjarnorkuvopnalausan heim.