Engin kona í stjórn í 8 ríkjum heims

0
402
Gender Equality

Gender Equality

15.mars 2016. Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur heitið því að láta ekki deigan síga fyrr en konur hafi sest á öll þjóðþing og í allar ríkisstjórnir heims.

Í ræðu sinni við upphaf 60.fundar Nefndar um stöðu kvenna (CSW) í New York í gær sagði aðalframkvæmdastjórinn að enn væru fjögur ríki í heiminum þar sem engin kona sæti á þingi og í átta ríkisstjórnum heims væru engar konur.

„Ég ætla ekki að nefna nöfn ríkjanna en ég mun halda því til streitu að hvetja þau til að breyta þessu. Ég mun fylgjast með því daglega hvort breyting hafi orðið til batnaðar og mun halda áfram að beita þrýstingi þar til ekkert þjóðþing í heimi er án konu og engin ríkisstjórn heldur,“ sagði Ban.

Samkvæmt tölum Alþjóða þingmannasambandsins (IPU) frá 1.febrúar eru raunar fimm ríki sem hafa enga konu á þingi en þau eru Haítí, Mikrónesía, Katar, Vanuatu og Tonga.

Hæst hlutfall kvenna í heiminum er á þingi Rúanda eða 63.8%. Á Norðurlöndunum er hlutfallið hæst í Riksdagen í Svíþjóð, 43,6% (#5 í heiminum), en næst kemur Finnland 41.5% (#10), Ísland 41.3% (#11), Noregur 39.6% (#15-16) og Danmörk 37.4% (#21).