Enginn getur gert allt en allir eitthvað

0
441

Volunteer

4. desember 2012. Hvað er meira viðeigandi nú þegar tími gjafanna fer í hönd en að heiðra þá sem gefa?

Fimmti dagur gjafamánaðarins, desember, er alþjóðlegur dagur helgaður sjálfboðaliðum.

Á þessum degi eru þeir heiðraðir sem gefa tíma sinn og vinnukraft hvort heldur sem er í þágu þeirra sem sárt eiga að binda á átakasvæðum eða á sjúkrahúsum, einkaheimilum eða menntastofnunum : hvar sem manneskur þurfa á aðstoð að halda.

”Þegar þú verður eldri, vertu þess þá minnugur að þú hefur tvær hendur, aðra til að hjálpa sjálfum þér en hina til að rétta hjálparhönd,” er haft eftir leikkonunni Audrey Hepburn.

Í ávarpi sínu á þessum alþjóðadegi sjálfboðaliða í efnahags- og félagslegri þróun, leggur Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á að sjálfboðaliðastarf er af mörgum toga. ”Við skulum minnast þess að sumir sjálfboðaliðar eru eldhugar sem vinna endurgjaldslaust í fullu starfi en aðrir eru venjulegar manneskjur sem leggja sitt af mörkum þegar þeir geta. Hvort heldur sem er, er þetta dæmi um þá samúð og einurð sem heimurinn þarfnast.”

Framkvæmdastjórinn bendir einnig á að í dag þarf maður ekki einu sinni að rétta hjálparhönd, heldur nægir að lyfta fingri og senda sms-skilaboð eða önnur rafræn boð í þágu góðs málsstaðar.  

”Það hefur tíðkast frá ómunatið að hjálpa öðrum endurgjaldslaust en ný vídd hefur opnast á okkar stafrænu tímum. Hver sem hefur farsíma eða netaðgang getur lagt sitt lóð á vogarskálarnar”
 
”Sjálfboðaliðastarf felur í sér samstöðu og gagnkvæma tillitssemi sem er til hvar í heiminum sem er, á öllum tungumála- og menningarsvæðum. Sjálfboðaliðar öðlast lífsfyllingu við að leggja starfskraft sinn fram endurgjaldslaust,” segir Ban Ki-moon.


Mynd: Sjálfboðaliði, þjálfaður af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) aðstoðar móður og barn á Haítí. SÞ/Sophia Paris.