Erítrea: Kerfisbundin mannréttindabrot

0
560
Eritrea commission of Inquiry SMALL

Eritrea commission of Inquiry SMALL

17.mars 2015.Rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna telur að „kerfisbundin mannréttindabrot” eigi sér stað í Erítreu.

Sérskipuð nefnd sem rannsakar mannréttindi í Erítreu skilaði Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna áfangaskýrslu í gær, eftir fjögurra mánaða starf.

Nefndin hefur ekki fengið leyfi til þess að heimsækja Erítreu en Mike Smith, formaður hennar segir að rætt hafi verið við 500 landflótta Erítreumenn. Nefndarmenn heimsækja á næstu dögum Svíþjóð, þar sem 9 þúsund Erítreumenn búa og Þýskaland.

Smith benti á að herþjónusta væri almenn og ótímabundin. Frá 17 ára aldri gæti hver Erítreumaður átt von á að vera kallaður til þjónustu og eyða þar því sem eftir væri æfinnar og þyrftu að draga fram lífið á andvirði tveggja Bandaríkjadala á dag. Slíkt nægði ekki fyrir frumþörfum, hvað þá að sjá fyrir fjölskyldu. „Flestir Erítreumenn hafa engar vonir um framtíðina,” sagði hann á blaðamannafundi þegar skýrslan var kynnt í Genf í gær.

Mike SmithÞá hefði ríkisstjórnin takmarkað frelsi íbúanna svo mjög að „einstaklingum finnst þeir eigi engra kosta völ um mörg meginatriði lífs síns, svo sem um búsetu, starfsvettvang, hjónaband og trúarbrögð.”
Í augum Erítreumanna, segir Smith „er frelsissvipting hversdagslegt fyrirbæri sem ótrúlega margir einstaklingar þurfa að þola, hvort heldur sem er karlar eða konur, ungir eða aldnir, og jafnvel börn.”
Fólk væri hneppt í varðhald jafnt í ópinberum sem opinberum fangelsum sem gætu rétt eins verið neðanjarðar. Í sumum tilfellum væri fólk læst inn í járnbúrum þar sem fangarnir þjáðust í hitasvækju, en einnig væru dæmi um að þeir væru í haldi á afgirtum svæðum án nokkurs skjóls.

„Þeir sem eru hnepptir í varðhald eiga á hættu að vera pyntaðir til að þvinga þá til játninga eða í refsingarskyni,”bætti hann við. Pyntingar eru algengar jafnt í varðhaldi sem í herþjónustu. Margir Erítreumenn sem nefndin ræddi við hafa verið barðir eða pyntaðir fyrir það eitt að biðja um lyf eða drekka vatn án leyfis.

Smith bendir á að bakgrunnur þessara mannréttindabrota væru hið svokallaða „hvorki stríð, né friður” ástand í landamæraerjum Erítreu við nágrannaríki sín, en þar er helst að telja Eþíópíu og Súdan, auk Djibútí. Eritrea varð sjálfstætt ríki 1991 eftir þriggja áratuga baráttu fyrir aðskilnaði frá Eþíópiu. Árið 1998 réðist her Erítreu inn í Eþíópíu, en eftir tveggja ára stríð höfðu Eþiópíumenn náð nokkru landsvæði í nágrannaríkinu á sitt vald og hafa ekki skilað því til baka.

„Þetta ástand er skálkaskjól ríkisins og réttlæting fyrir áframhaldandi mannréttindabrotum í landinu” sagði hann. Ríkið hefur með þetta að yfirvarpi hervætt þjóðfélagið í heild, stjórnarskránni hefur verið ýtt til hliðar og réttarríki þrífst ekki. Enginn hefur verið dreginn til ábyrgðar fyrir mannréttindabrot.

 „Þarf það að koma á óvart,” spyr Smith „að hundruð Erítreumanna flýji land á hverjum degi? Hugrakkt fólk hættir lífi sínu til að komast úr landi, og er ýmist yfir eyðimörk eða haf að fara.” Sumir komast aldrei á áfangastað.

Erítreumenn eru næst fjölmennasti hópur fólks em undanfarin misseri hefur farið þúsundum saman sjóleiðina til Evrópu. Tugir þúsunda hafast við í nágrannaríkjum.

Rannsóknarnefndin um mannréttindi í Erítreu var skipuð af Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna með ályktun A/HRC/RES/26/24. Nefndin á að skila skriflegri skýrslu um niðurstöður sínar í júní 2015.

Munnleg yfirlýsing var gefin á fundi 28.fundi Mannréttindaráðsins 16. mars 2015.  Nánari upplýsingar hér og hér

Myndir: 1.) Flóttamenn frá Erítreu Mynd:UNHCR 2.) Mike Smith UN Photo/Mark Garten

 

 

„Þarf