Euro 2024: hátíð fótbolta, farandfólks og sjálbærni

0
89
Heimsmeistarakeppninni í Katar 2022.
Þýska landsliðið í Heimsmeistarakeppninni í Katar 2022. Mynd: Wikimedia/Creative Commons Attribution-Share Alike 4.0 International license.

Heimsmarkmiðin. Farandfólk. Flóttamenn. Hvað eiga Þjóðverjinn Ilkay Gündoğan, Frakkinn Eduardo Camavinga og Spánverjinn Nico Williams sameiginlegt? Jú, vissulega eru þeir allir á meðal leikmanna á Euro 2024, Evrópukeppni karlalandsliða, sem stendur yfir í Þýskalandi. En það er annað sem þeir eiga líka sameiginlegt: þeir eru synir flótta- og farandfólks.

Þeir eru fráleitt einir í þeim hóp á Euro 2024 og margir leikmannanna geta þakkað mikilli fórnfýsi foreldranna árangur sinn. Þótt Spánverjinn Nico Williams hafi fæðst í nautahlaupsborginni frægu Pamplona, er hann eins og nafn hans gefur til kynna, ekki af spænsku kyni.

Nico Williams leikur með Athletic Bilbao í spænska Baskalandi.
Nico Williams leikur með Athletic Bilbao í spænska Baskalandi. Mynd: Maider Goikoetxea/Wikimedia/CC BY-SA 2.0

Gengu berfætt yfir Sahara

Foreldrar hans eru frá Gana. Þau héldu til Evrópu í leit að betra lífi og urðu að ganga berfætt yfir Sahara-eyðimörkina eftir að manneskjusmyglarar skildu þau eftir á vergangi. Þau komust með mikilli seiglu til spænsku nýlendunnar Melilla í Marokkó og þaðan til spænska fastalandsins. Eldri bróðir Nico, Iñaki, er liðsfélagi hans hjá Athletic Bilbao. Hann lék með Spáni á yngri árum en venti síðan kvæði sínu í kross og leikur nú fyrir Gana, land foreldra sinna.

Nico naut leiðsagnar eldri bróður síns hjá Athletic og nú axlar hann slíka ábyrgð gagnvart ungum félaga í landsliðinu Lamine Yamal. Sá er sonur innflytjenda eins og Nico og á rætur að rekja til Marokkó og Miðbaugs-Gíneu. Nico verður 22 ára 12 júlí en Yamal, yngsti leikmaður mótsins, verður 17 ára 13.júlí – daginn fyrir úrslitaleik Euro 2024.

Edouardo Camavinga er af angólsk-kongólskum uppruna.
Edouardo Camavinga er af angólsk-kongólskum uppruna. Mynd:Wikimedia/Fotografías Archimadrid.es/ CC BY 2.0

Mótlætið herðir

Yamal og Williams-bræðurnir hafa oft rekist á Frakkann Eduardo Camavinga, því hann leikur líka í La Liga með Spánar- og Evrópumeisturum Real Madrid. Þótt Camavinga sé ungur að árum á hann líka viðburðaríka ævi að baki. Hann er af angólsku og kongólsku bergi brotinn og fæddist í flóttamannabúðum í Angóla. Foreldrarnir höfðu flúðið borgarastríð í Kongó og fengu um síðir hæli í Frakklandi. Camavinga segist sækja sér innblástur í þá erfiðleika sem fjölskylda hans eigi að baki. Ekki hið einasta þurftu þau að leggja á flótta frá Kongó, heldur brann ofan af fjölskyldunni skömmu eftir að hún var farin að koma undir sig fótunum í nýja landinu.

İlkay Gündoğan fyrirliði Þýskalands.
İlkay Gündoğan fyrirliði Þýskalands. Mynd: Granada/Wikimedia/CC BY-SA 4.0

Sonur Gastarbeiter” fyrirliði die Mannschaft”

Þýski knattspyrnumaðurinn İlkay Gündoğan er ekki ókunnugur Camavinga og Williams-bræðrum því hann leikur á Spáni fyrir Barcelona. Þótt hann sé fyrirliði „die Mannschaft”, þýska landsliðsins, varð hann ekki fremur en aðrir óbarinn biskup. Þannig mátti hann þola ókvæðisorð frá aðdáendum eftir að hann kallaði Recep Erdoğan leiðtoga Tyrkja „forseta sinn” á fundi árið 2018.

Saga Gündoğan er ekki eins dramatisk og sumra annara en ef til villi dæmigerðari. Hann fæddist tyrkneskum foreldrum í Gelsenkirchen í Þýskalandi. Þangað hafði afi hans flutt frá Tyrklandi til að vinna sem  „Gastarbeiter” í námu.

Jesse Owens.
Jesse Owens. Acme News Photos /
Public Domain

Skipan þýska liðsins á Euro 24 er til marks um hve mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan á Ólympíuleikunum í Berlín 1936. Þá afsannaði þeldökki bandaríski frjálsíþróttamaðurinn Jesse Owens kenningar nasista um yfirburði hvíta kynstofnsins með árangri sínum, foringja heimamanna, Adolf Hitler, til mikils ama.

Nú er Gündoğan langt í frá að vera sá eini sem ekki hefði verið hleypt í þýskt landslið á tímum kynþáttamismununnar. Jamal Musiala, Antonio Rüdiger, Jonathan Tah og Leroy Sané, eru allir, að hluta til að minnsta kosti, af afrísku bergi brotnir.

Endurspeglun nýlenduarfs

Sama máli gegnir um mörg önnur líð. Þannig eru nítján af tuttugu og fimm leikmönnum franska liðsins afkomendur afrískra innflytjenda. Þar á meðal er fyrirliðinn Kylian Mbappé, sonur alsírskrar móður og kamerúnsks föður. Fjölbreytnin er mikil því Antoine Griezmann og Theo Hernandez eru svo að hluta, annars vegar portúgalskar, og hins vegar spænskrar ættar.

Jude Bellingham í leik með enska landsliðinu.
Jude Bellingham í leik með enska landsliðinu. Mynd: Wikimedia/CC BY 4.0

Og ekki þarf að líta nema sem snöggvast á myndir af enska liðinu til að sjá að þar gegnir svipuðu máli því það státar af hörundsdökkum leikmönnum á borð við Jude Bellingham, Bukayo Saka og Trent Alexander-Arnold, svo einhverjir séu nefndir.

Sviss átti aldrei nýlendur en auður landsins og blómlegt atvinnulíf hefur laðað til sín farandfólk, auk pólitískra flóttamanna. Balkanskaginn hefur löngum litið til Sviss og þrír leikmannanna, þar á meðal fyrirliðinn Granit Xhaka, Xherdan Shaqiri og Ardon Jashari eru allir af albönsku kyni.

Euro 2024 fer fram í Þýskalandi.
Euro 2024 fer fram í Þýskalandi.

Aðrir leikmanna eiga sér svo forfeður og -mæður í ríkjum á borð við Grikkland, Spán, Síle, Tyrkland, Túnis, Dóminikanska lýðveldið, Kamerún Nígeríu, Gana, Senegal, Suður Súdan og Lýðveldið Kongó.

Þetta eru aðeins dæmi og langt frá því tæmandi úttekt yfir liðin á Euro 2024. Flóttamenn og farandfólk þarf oftast að byrja með tvær hendur tómar í neðstu þrepum samfélagsstigans. Margir í hópi þessa fólks hafa fært sér í nyt að knattspyrna í Evrópu hefur verið leið, sem öllum er opin óháð uppruna til að klífa metorðastigann. Nú er fólk af afrískum uppruna áberandi en fyrir 30-40 árum voru suður og suðaustur Evrópubúar enn fjölmennari og til dæmis leikmenn af ítölskum uppruna eins og Michel Platini gerðu garðinn frægan í Frakklandi og fleiri Norður-Evrópuríkjum.

Fótbolti fyrir markmiðin - Football for the goals
Fótbolti fyrir markmiðin – Football for the goals

Fótbolti fyrir markmiðin

UEFA, evrópska knattspyrnusambandið, skipuleggjandi Euro 2024 er stofnfélagi í átaki Sameinuðu þjóðanna Fótbolti fyrir markmiðin (Football for the Goals). Amina J. Mohammed vara-aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna minnti á, þegar átakinu var ýtt úr vör, hve einfaldur leikur fótboltinn væri og öllum opinn. „Allt sem þarf er fótbolti og fólk getur komið saman og leikið. Á hverjum einasta degi leika milljónir manna um allan heim þennan leik, hvort heldur sem er á grasflöt, skólalóð eða risaleikvangi.“

Markmiðin í nafni átaksins vísa bæði til markanna í fótbolta og Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þau eru innbyrðis tengd markmið um hnattrænar áskoranir á borð við fátækt, ójöfnuð, loftslagsbreytingar, umhverfisspjöll, frið og réttlæti. Þeim ber að ná fyrir 2030.

Euro 24 hefur að markmiði að hafa sjálfbærni að leiðarljósi í öllum sínum aðgerðum og styðja Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun.