Þróun eftir 2015 í brennidepli

0
425

 water

Umræður um framtíð þróunarsamvinnu eru smátt og smátt að hefjast á Norðurlöndum eftir því sem árið 2015 nálgast.

Þá lýkur núverandi þróunaráætlunum sem kenndar eru við Þúsaldarmarkmiðin um þróun og er búist við að nýr alþjóðlegur rammmi verði samþykktur. 

Í almennu umræðunum á 68.Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna ekki alls fyrir löngu, töluðu Norðurlöndin öll fyrir „grænum“ áherslum með áherslu á sjálfbærni þegar „Dagskrá þróunarmála eftir 2015“ var til umræðu. 

Erkki„Grænt hagkerfi er ekki munaður, heldur forsenda fyrir því að draga úr fátækt og efla sjálfbærni,“ sagði Erkki Tuomioja, utanríkisráðherra Finnlands.

Norðurlöndin hafa sterkan róm þegar þróunarmál eru annar vegar. Þrjú ríkjanna; Danmörk, Noregur og Svíþjóð, hafa náð því takmarki Sameinuðu þjóðanna að verja skuli 0.7% af þjóðartekjum til þróunaraðstoðar.
En þegar þessar umræður eru að hefjast eru teikn á lofti þótt viðhorf til þróunaraðstoðar séu almennt jákvæð. Á meðal nýrra blæbrigða er að Norðurlöndin eru ekki jafn samstíga og áður var. Öll ríki heims glíma við fjármálakreppuna og á heimsvísu hafa framlög til þróunar minnkað um 6% frá 2011, þótt samdráttarskeiðinu virðist nú vera lokið. 

 Norrænu ríkin hafa ekki öll brugðist við á sama hátt.

Utanríkisráðherrar Norðurlanda 3-sept-2013• Í Danmörku heldur ríkisstjórn jafnaðarmanna fast við áætlanir um að ná því takmarki í áföngum að verja 1% í þróunarsamvinnu.
• Svíar hafa löngu náð því marki og ætla að halda fast við 1% markið. Sænsk stjórnvöld hafa hins vegar tilkynnt að þau muni fara í saumana á fjölþjóða þróunaraðstoð eftir ásakanir um óráðsíu í blaðinu Svenska Dagbladet.
• Margir bjuggust við niðurskurði í þessum málaflokki í Noregi eftir að ráðherraembætti þróunarmála var lagt niður þegar ný stjórn tók við völdum í haust. Þess sáust hins vegar lítil merki í nýju fjárlagafrumvarpi.
• Stefna finnsku stjórnarinnar er að halda þróunaraðstoð óbreyttri 2014. Hins vegar hefur nýr þróunarráðherra úr röðum græningja, Pekka Haavisto, sagst vilja stefna að því að ná 0.7% markinu fyrir 2015 en hlutfallið nú er um 0.6%

• Á Íslandi hefur verið djúpur niðurskurður á þróunarframlögum og sparnaðarnefnd ríkisstjórnarinnar hefur boðað enn frekari niðurskurð.

Þessu til viðbótar má nefna að Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru í Evrópusambandinu sem hefur samiginlega þróunarstefnu. Markmið hennar eru að uppræta fátækt og leitast við að ná Þúsaldarmarkmiðunum um þróun.

global greenHvassyrtar umræður hafa einnig orðið um framlög til þróunarmála í Danmörku, en aldrei þessu vant fjallar málið ekki um aðgerðir ríkisstjórnarinnar heldur athæfi formanns stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre og fyrrverandi forsætisráðherra var sakaður um bruðl þegar hann ferðaðist á fyrsta farrými í embættisstörfum sem stjórnarformaður Global Green Growth Institute (GGGI) . Sú stofnun er að hluta fjármögnuð með dönsku þróunarfé. Hins vegar leiddi málið til afsagnar Christian Friis Bach, ráðherra þróunarmála (21.nóvember) en hann viðurkenndi að hafa sagt þinginu rangt frá því þegar hann sagðist ekki hafa tekið þátt í að samþykkja umdeildar ferðareglur GGGI. 

Á hinn bóginn, er einhugur á meðal stóru flokkanna í Danmörku að láta 0.7% þjóðartekna renna til þróunaraðstoðar. Venstre vill þó gott heita við svo búið á meðan ríkisstjórnin vill hækka framlögin eins og fyrr segir.
Danir hafa verið frumkvöðlar á Norðurlöndum í að breyta orðræðunni um þróunarmál og leggja áherslu á þann árangur sem náðst hefur, þökk sé þróunarsamvinnu í stað þess að einblína á þjáningar, hungur og fátækt.
Camillia Brückner, forstjóri Norðurlandaskrifstofu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) bendir á í viðtali annars staðar í fréttabréfinu að rannsóknir UNU-Wider auk óháðra rannsókna renni stoðum undir að þróunaraðstoð skili tilætluðum árangri.
”Þróunaraðstoðin hefur skipt sköpum í mörgum löndum og þetta er einmitt sá boðskapur sem við höfum reynt að koma á framfæri í herferðinni „Heimsins bestu fréttir.“ 

Bedste nyhederSameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra, danska þróunarstofnunin, tugir frjálsra félagasamtaka og meir en 90 fyrirtæki hafa tekið höndum saman árlega frá árinu 2010 í „Bestu frétta herferðinni“ þar sem jákvæður boðskapur er í fyrirrúmi. Svíar og Íslendingar hafa síðar bryddað upp á svipuðum herferðum.

“Tilgangur frumkvæðisins er að upplýsa almenning um að Þúsaldarmarkmiðin eru árangursrík: Þróunarríkin hafa tekið stórstígum framförum, og ef við viljum, getum við gripið tækifærið og bundið enda á fátækt,“ segir Thomas Ravn Pedersen, verkefnisstjóri herferðarinnar. Allir helstu stjórnmálaflokkar Danmerkur hafa lagt „Bestu fréttunum“ lið.

Mette1UNDP í Danmörku tekur heilshugar undir þessa virku og jákvæðu afstöðu til þróunarmála. Mette Fjalland, fjölmiðlafulltrúi hjá UNDP segir að umræður um hversu mikið renni til þróunarmála sé í raun tengd enn stærri umræðu sem sé „af hverju við veitum þróunaraðstoð og hvað við fáum í staðinn.“

“Sú staðreynd að við tölum enn um þróunaraðstoð segir heilmikla sögu. Orðið aðstoð þýðir að margir líta á framlög Dana sem góðgerðastarfsemi. Að mínu áliti er kominn tími til að við lítum á þetta sem fjárfestingu í þróun. Danmörk líkt og önnur ríki sem láta fé af hendi rakna, hafa beina hagsmuni af því að efla félagslega-, efnahagslega- og sjálfbæra þróun í fátækum ríkjum.

Með þvi að tala um þróunarfjárfestingu í stað aðstoðar, kemst það ef til vill betur til skila að þróunaraðstoð er jafnt í þágu Danmerkur sem hinna fátæku ríkja,“ segir Mette Fjalland.

Að auki bendir hún á að fjárfesting í þróun geti vísað veginn út úr efnahagskreppunni. „Þróun þýðir betri lífsafkomu og þar með nýja markaði og alþjóðlega fjárfestingarkosti handa dönsku atvinnulífi. Þróun eflir frið og öryggi, sjálfbærni og öflugra samfélag. Allt þetta er í allra þágu í hnattvæddum og samofnum heimi.“