Ferskvatn: baráttan harðnar

0
513
Vanndag

Vanndag

22.mars 2015. Vatn liggur til grundvallar sjálfbærri þróun. Aðgangur að ferskvatni og öll þjónusta í kringum vatn er undirstaða baráttunnar gegn fátækt, aflvaki hagvaxtar og sjálfbærni umhverfisins.

Ferskvatn er ómissandi til að tryggja örugga fæðu og orku, stuðlar að heilbrigði manns og umhverfis og er lykilatriði í að tryggja félagslega velmegun og hagvöxt í allra þágu og hefur þannig áhrif á líf milljarða manna.

Alþjóða ferskvatnsdagurinn  er haldinn 22.mars ár hvert. Að þessu sinni er kastljósinu beint að þemanu Vatn og Sjálfbær þróun. Vatn tengir saman alla þá þætti sem við þurfum til að skapa þá framtíð sem við viljum.

„Nú þegar loftslagsbreytingar eru farnar að segja til sín, eykst eftirspurn landbúnaðar, iðnaðar og borga eftir takmörkuðum birgðum ferskvatns. Mengun hraðar svo þeirri vatnskreppu sem eingöngu verður glímt við með heildstæðum áætlunum og stefnumörkun, á alþjóða vettvangi, í hverjum heimshluta og á hnattræna vísu,” segir Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi á Alþjóða ferskvatnsdaginn.

Markmiðum Þúsaldarmarkmiðanna um þróun (MDGs) sem sett voru árið 2000, hefur verið náð hvað aðgang að ferskvatni varðar. Tekist hefur að helmingja fjölda þeirra sem hafa ekki aðgang að fullnægjandi ferskvatni, fimm árum fyrr en ætlað var. Frá 1990 til 2012 fengu 2.3 milljarðar manna þannig aðgang að heilnæmu vatni. Þrátt fyrir þennan umtalsverða árangur hafa 750 milljónír manna eða næstum tíundi hver jarðarbúi ekki aðgang að fullnægjandi ferskvatni.

Fjórðungur mannkyns hefur öðlast aðgang að bættri salernisaðstöðu frá árinu 1990. Á hinn bóginn hafa 2.5 milljarðar manna ekki aðgang að fullnægjandi salerni og milljarður manna verður að gera sér að góðu að ganga örna sinna undir berum himni. Salernisaðstaðan er eitt þeirra markmiða sem verst hefur gengið að ná, þegar Þúsaldarmarkmiðin um þróun eru annars vegar. 

„Það er tómt mál að tala um að íbúar heims búi við reisn, góða heilsu og velmegun fyrr en við höfum fullnægt þessari brýnu þörf,” segir Ban Ki-moon í ávarpi sínu á Ferksvatnsdaginn.

„Til þess að takast á við allar þessar áskoranir sem tengjast vatni, verðum við að vinna í sameiningu að þessum brýnu úrlausnarefnum og vera opin fyrir nýjum hugmyndum og nýjungum og reiðubúin til að deila þeim lausnum sem við þurfum til að byggja upp sjálfbæra framtíð. Ef við gerum það, getum við bundið enda á fátækt, eflt hagsæld og velmegun á heimsvísu, verndað umhverfið og staðið af okkur ógnir loftslagsbreytinga.”