Finnar fyrstir til að nota hunda til að þefa uppi COVID-19

0
658
COVID-19

Þefvísir hundar eru notaðir með góðum árangri til að þefa uppi farþega sem kunna að vera sýktir af COVID-19 veirunni á Vantaa-flugvelli í Helsinki, höfuðborg Finnlands.

Notkun hundanna hefur reynst ódýr, fljótvirk og skilvirk aðferð til að finna og stöðva ferðamenn sem eru smitaðir af kórónaveirunni. Hundrað farþegar á dag eða 2200 á mánuði eru „skimaðir” eða öllu heldur þefaðir á þennan hátt af þefvísum ferfætlingum frá því í september.

100% öruggt

Rannsóknir benda til að þefskyn hundanna sé nánast 100% öruggt, jafnvel fimm dögum áður en nokkur einkenni gera vart við sig hjá hinum smitaða.

Notkun hundanna er hluti af tilraunaverkefni sem miðar að því að tryggja öruggar flugsamgöngur og minnka útbreiðslu COVID-19. Nú sem stendur eru 6 hundar að störfum á Helsinki- Vantaa flugvellinum. Hundarnir munu halda áfram að þefa uppi smitaða farþegar að minnsta kosti til áramóta en líklegt er að verkefnið haldi áfram fram á næsta sumar, 2021.

Þef er ódýrt, fljótt og skilvirkt   

COVID-19Þefskyn hunda hefur í sívaxandi mæli verið virkjað. Þeir þefa upp allt frá rakaskemmdum til krabbameins og því engin furða að þeir væru munstraðir á COVID-vaktina.

„Það koma á daginn að það er tiltölulega fljótlegt að þjálfa hunda á þennan hátt. Árangurinn kom ekki síður skemmtilega á óvart og lofar góðu. Hundur getur fundið kórónaveirusmit á innan við 10 sekúndum. Allt ferlið tekur innan við mínútú,“ segir Soile Turunen verkefnistjóri hjá Þefvísu stofnuninni í viðtali við vefsíðu UNRIC.

Einfalt 

Ferlið er harla einfalt. Flugfarþegi tekur sjálfur húðsýni og afhendir það. Hundurinn og þjálfarinn eru handan veggjar og þar þefar hundurinn af sýnunum. Þetta hefur þann kost að farþegum sem óttast eða hafa ofnæmi fyrir hundum er hlíft. Að ekki sé minnst á að umsjónarmenn eru í engri hættu að smitast og hundarnir sjálfir eru ónæmir fyrir henni.  Engum persónurekjanlegum upplýsingum er safnað. Ef niðurstaðan er jákvæð er farþeganum beint til upplýsingaseturs Háskólasjúkrahússins í Helsinki.

Tilraunaverkefnið kostar um 300.000 evrur sem er mun ódýrara en taka sýna sem greind eru á rannsóknarstofum.

„Slíkt kostar um það bil 4 milljónir evra á mánuði en þef kostar innan við 100 þúsund á sama tíma,“ segir Anna Hielm-Björkman dósent við Helsinki háskóla í viðtali við vefsíðu UNRIC.

Bónusgreiðslur í fomi kjötbollu, pylsu eða leikfangs

Þefvísir hundar
Emily Rusch @emilyvprusch Unsplash

Hundarnir hafa flestri verið notaðir áður til að þefa uppi hitt og þetta og sumir þeirra eru notaðir á fleiri en einu sviði.

„Hundarnir eru eldsnöggir að læra að þekkja veiruna. En í tilfelli kórónaveirunnar þarf að þjálfa hann sérstaklega til að athafna sig á flugvelli og það tekur lengri tíma. Að jafnvaði tekur þjálfunin 1-3 máuði,“ segir Turunen verkefnisstjóri.

Hún segir að ekki séu allir hundar hentugir til þefþjónustu. Þeir megi hvorki vera of ungir né of gamlir. Þá hafi ekkert allir hundar áhuga á að þefa hluti uppi og miserfitt sé að þjálfa þá.

„Við höfum alltaf tvo hunda í hvild á meðan tveir aðrir eru á vakt. Stundum er þörf á hvetjandi launakerfi. Bónusgreiðslur eru í formi kjötbollu, pylsu eða skemmtilegs nýs leikfangs,“ segir Turunen og hlær.

„Þá ber að hafa í huga að þetta starf reynir á nef og heila og við þurfum að fara vel með þessa hunda.“

„Farþegar hafa tekið þefinu vel og segja það auðvelt, sársaukalaust og að öllu leyti ánægjulegt,“ bætir hun við stolt.

Samvinna á heimsvísu

Þefvísir hundar COVID-19
Photo by jojo (sharemyfoodd) ◡̈ on Unsplash

Notkun hundar er til athugunar í löndum á borð við Ástralíu, Frakklandi, Þýskalandi og Bretlandi en Finnland var fyrst til að taka þá í notkun. Að sögn Björkman berast þeim nýjar fréttir í tölvupósti um þetta mál á hverjum degi. Þannig hafi tilraunir staðið yfir á alþjóðaflugvellinum í Dubai. Finnar eru í samvinnu við 20-30 ríki um þefvísu hundana.

„Það mætti hugsa sér að nota hundana víðar, til dæmis á sjúkrahúsum, elliheimilum og á íþrótta- og menningarviðburðum. Hundar geta leikið stórt hlutverk í að halda aftur af faraldrinum og stuðla að því að hægt sé að hafa samfélagið opið,“ segja þær Björkman og Turunen.

Þær bæta því við að þör sé á viðhorfsbreytingu hjá heilbrigðisstéttum og almenningi.

„Venjulega eru það læknar sem greina veikindi á meðan hundinum leiðist á sófanum. Hundar hafa svo mikið upp á að bjóða sem hægt væri að virkja á tímum heimsfaraldursins en líka að honum loknum,” segir Björkman.