Fjárfestingar í starfi kennara skila sér margfalt

0
871
Alþjóðlegur dagur kennara
Mynd: Giovanni Gagliardi, Unsplash

Kennarar gegna þýðingarmiklu hlutverki við að auka þekkingu og þroska hæfileika barna. Af þeim sökum skiptir það verulegu máli að þeir hafi réttar forsendur til að gegna starfi sínu sem skiptir samfélagið svo miklu máli.

 Í starfi kennara felst að leggja grundvöll fyrir framtíðina. Að baki náms og þroska hvers nemanda er kennari. 5.október ár hvert er haldinn Alþjóðlegur dagur kennara.    Tilgangurinn er að vekja athygli á starfi kennara í leik- og grunnskólum um allan heim.

Alþjóðlegur dagur kennara
Mynd: Kimberly Farmer, UNSPLASH

Tómt mál er að tala um að leysa ýmis helstu vandamál sem herja á heimsbyggðina, ef fræðslu komandi kynslóða er ábótavant. Fjárfestingar í starfi kennara skila sér því margfalt til baka. Því er mikilvægt að skólastarfi og menntun sé sinnt sómasamlega til þess að kennarar hafi réttar forsendur til að sinna starfi sínu. Sænski kennarinn Ellie Jabbari stundar kennslu í ensku og trúarbrögðum.

„Áður fyrr fólst mikilvægi kennarans aðallega í því að miðla þekkingu en í dag er hlutverk hans margslungnara,” sagði Jabbari í samtali við vefsíðu UNRICs.

„Nú felst líka í starfi okkar að vera fyrirmyndir og leiðbeinendur. Okkur er ætlað að sjá, heyra, hvetja og styðja.”

Þá er hlutverk kennarans í sívaxandi mæli að greina þau málefni sem eru í deiglunni og hafa áhrif á veröldina, segir Jabbari.

Kröfur samtímans

 Í síbreytilegum heimi stendur kennari frammi fyrir nýjum kröfum og áskorunum. Og ein þeirra er óneitenlaga tímaskortur.

Alþjóðlegur dagur kennara
Mynd: Neonbrand, Unsplash

Sænsku kennarasamtökin (Lärarförbundet) hafa gefið út gátlista til félagsamanna sinna. Þar eru upplýsingar um viðbrögð við álagi, og hvernig greina megi teikn á lofti um of mikið álag og óheilnæman vinnutíma

Jabbari segist kannast við margt á þessum lista. Kennarar vinni oft„ókeypis” og séu að störfum utan við venjulegan vinnutíma.

„Við vinnum auðvitað fyrir okkur sjálf og til þess að kennslan sé góð. En fyrst og fremst vinnum við fyrir nemendurna.“

Kórónaveirufaraldurinn hefur haft margar áskoranir í för með sér. Að mati OECD hefur bilið á milli ríkra og fátækra aukist við lokun skóla. Sumir telja að lokanir muni kosta fleiri lífið þegsar upp er staðið en sjálfur COVID-19 faraldurinn í þróunarríkjum.

Ellie Jabbari telur að áhrif faraldursins hafi dregið úr möguleikum kennarans að meta þarfir hvers nemanda út af fyrir sig.

„Við fjarlægðina tapast kraftur og gagnkvæm samskipti. Þegar ég er í kennslustofu skynja ég orkustigið og stemninguna. Þetta gerir mér kleift að aðlaga mig skjótar að aðstæðum og koma þeim nemendum til hjálpar sem þurfa aðstoð og hvetja þá sem þess þurfa. Í fjarkennslu  er erfiðara að greina hvort nemendum líði vel eða illa og hvort grípa þurfi inn í.”

Kennaraskortur í heiminum

Alþjóðlegur dagur kennara Kennaraskortur er í heiminum og kann það að hafa slæmar afleiðingar. Talið er að það vanti 2.7 milljónir kennara. Þetta þýðir að það verði alvarlegir brestir í kennslu margra  barna. Í sumum löndum sinni einn kennari 100 nemendum í einu í einni kennslustofu. Meira að segja í Svíþjóð er reiknað með að það vanti 65 þúsund menntaða kennara árið 2025 að mati sænska kennarasambandsins.

73 ár eru frá því að rétturinn til menntunar var viðurkenndur sem mannréttindi í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þrátt fyrir þetta njóta 60 milljónir barna í heiminum engrar skólagöngu. Ef möguleikar á framhaldsmenntun eru teknar með í reikninginn er talan um fjórðungur milljarðar barna og ungmenna.