Fjölbreytni lífríkisins: við erum hluti af lausninni

0
651

Fjölbreytni lífríkisins hefur minnkað svo mjög að engin dæmi eru um slíkt í sögu jarðarinnar. Álagið á náttúrana eykst hröðum skrefum.   Við göngum svo hratt á auðlindir að náttúran hefur ekki við að endurnýja. Alþjóðlegur dagur fjölbreytni lífríkisins er haldinn 22.maí.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir í ávarpi í tilefni dagsins að COVID-19 sé áminning til okkar allra um að tengsl mannkynsins og náttúrunnar séu órjúfandi.

„Við verðum að vernda náttúruna, endurreisa vistkerfi og koma á jafnvægi í tengslum okkar við plánetuna. Uppskeran yrði ríkuleg.  Með því að snúa við því tapi sem við höfum mátt þola í fjölbreytni lífríkisins, getum við bætt heilsu mannsins, eflt sjálfbæra þróun og tekist á við loftslagsvána,“ segir Guterres.

Tæknilegar framfarir hafa engu breytt

Alheimssamfélagið stendur frammi fyrir því að endurskoða tengsl okkar við heim náttúrunnar. Eitt er víst: þrátt fyrir allar okkar tæknilegu framfarir erum við algjörlega háð heilbrigðum og þróttmiklum vistkerfum. Þau tryggja okkar neysluvatn, matvæli, lyf, föt, húsaskjól og orku, svo fátt eitt sé nefnt.

Þema Alþjóðlegs dags fjölbreytni lífríkisins 2021 er „Við erum hluti af lausninni.”

„Allir geta lagt sín lóð á vogarskálarnar,“ segir aðalframkvæmdastjórinn í ávarpi sínu.

„Lykillinn er sjálfbærir lifnaðarhættir. Öllum, alls staðar ætti að standa til boða að geta valið að lifa sjáfbæru lífi.“

Siðmenningin hefur ætíð verið háð fjölbreytni lífríkisins. 3 milljarðar manna sækja 20% dýra-eggjahvítuefnis til sjávarafurða. Meir en 80% fæðu mannsins er sótt til jurta. Allt að 80% þeirra sem búa í dreifbýli í þróunarríkjum nota hefðbundin lyf úr jurtaríkinu.

En okkur stafar ógn af missi fjölbreytni lífríkisins þar á meðal á heilbrigðissviðinu. Sýnt hefur verið fram á að ágangur mannnsins á lífríkið ýtir undir að sjúkdómar berist frá dýrum til manna. 

Á sama tíma er ljóst að ef okkur auðnast að viðhalda fjölbreytni lífríkisins uppskerum við úrræði til að takast á við heimsfaraldra á borð við þá sem kórónaverian hefur hrundið af stað.

Sjá nánar um Alþjóðlegan dag fjölbreytni lífríkisins hér og um Áratug Sameinuðu þjóðanna helguðum endurreisn vistkerfa hér.