Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna segir að Palestínumenn sem flúið hafi Írak þurfi brýna hjálp

0
476

26. júní 2007. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hvatti í dag til alþjóðlegrar aðstoðar við fjórtán hundruð palestínska flóttamenn sem flúið hafa Bagdad en eru strandaglópar í búðum við landamæri Íraks og Sýrlands. 

“Það er mjög brýnt að koma læknisaðstoð og mannúðaraðstoð til þeirra og við hvetjum bæði lönd í þessum heimshluta og annars staðar til að hjálpa við að lina þjáningar þeirra,” sagði  Jennifer Pagonis, talsmaður hjá Flóttamannahjálp SÞ (UNHCR) í Genf.  
Sveit frá UNHCR heimsótti Al Waleed búðirnar sem hýsa meir en þúsund Palestínumenn Íraksmegin landamæranna í síðustu viku. 
“UNHCR og Alþjóðanefnd Rauða Krossins gera allt sem hægt er til að veita almenna læknisþjónustu en það er mjög erfitt enda mikið af snákum og sporðdrekum og hreint vatn, hreinlætisaðstaða og húsaskjól af skornum skammti,” sagði frú Pagonis.