Flóttamannakvóti ESB: 0.004% af íbúafjölda

0
422
Migrant i Roquetas de Mar Almeria Spanien. Foto Flickr John Perivolaris CC

Migrant i Roquetas de Mar Almeria Spanien. Foto Flickr John Perivolaris CC

15.maí 2015. Mannréttindasérfræðingur Sameinuðu þjóðanna segir að tillögur Evrópusambandsins um að veita 20 þúsund manns hæli til að draga úr hættulegum fólksflutningum yfir Miðjarðarhafið, gangi alltof skammt.

Sérfræðingurinn, François Crépeau, sem er sérstakur erindreki samtakanna um mannréttindi farandfólks, segist  fagna sumu í tillögum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til að glíma við vanda farandfólks, en annað valdi vonbrigðum.

„Hugmyndir um að koma fólki fyrir og skipta á milli aðildarríkja er góð í eðli sínu, en gengur alltof skammt,“ segir Crépeau sem kynnti svipaðar hugmyndir í september á síðasta ári.

Crepeau„Hins vegar er fjöldinn alltof lítill, enda gefur auga leið að það er dropi í hafið að taka við 20 þúsund manns þegar 200 þúsund, að stærstum hluta hælisleitendur, komu til Evrópu sjóleiðina árið 2014.“

Sérstaki erindrekinn bendir á að 60 þúsund manns hafi verið bjargað það sem af er árinu. „Evrópa telur 500 milljónir manna, 20 þúsund eru aðeins 0.004% af fjölda íbúanna.”

Evrópusambandið kynnti Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á mánudag hugmyndir um aðgerðir, svo sem að eyðileggja skip smyglara, en þetta telur Crépeau vera mikla skammsýni.

„Smyglarar munu laga sig að aðstæðum svo lengi sem markaður er fyrir starfi þeirra,“ segir Crépeau.

Mynd: 1.) Flóttamaður nýkominn að landi í  Roquetas de Mar, Almeria, Spáni. Mynd: Flickr John Perivolaris CC.jpg 2.) François Crépeau, er sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi farandfólks,skipaður af Mannréttindaráðinu. SÞ-mynd/JC McIlwaine