Flóttamannavandinn snýst um samstöðu

0
529
humanitarian1

humanitarian1
16.maí 2016. Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skrifaði kjallaragrein í aðdraganda leiðtogafundar um mannúðarmál sem haldinn var í Istanbúl í Tyrklandi 23.-24. maí. Hún birtist í blöðum víða um heim, þar á meðal í Stundinni. Hún fer hér á eftir. 

Veraldarleiðtogar munu koma saman á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september til að takast á við eina helstu áskorun okkar tíma: að leita svara við hinum mikla straumi flóttamanna og farandfólks.

Fólk yfirgefur heimili sín til að leita á náðir annara landa í ríkara mæli en nokkru sinni frá því við höfum öruggar heimildir. Ástæðurnar eru ófriður, mannréttindabrot, vanþróun, loftslagsbreytingar og náttúruhamfarir. Meir en 60 milljónir manna hafa flosnað upp – helmingurinn börn- vegna ofbeldis og ofsókna og eru nú flóttamenn utan heimalands síns eða á vergangi innanlands. Að auki hafa 225 milljónir bættst í hóp farandfólks sem leitar betri tækifæra í erlendum ríkjum eða hleypir heimdraganum einfaldlega til að lifa af.

En vandinn snýst ekki um tölur heldur um samstöðu. Nærri 90% flóttamanna í heiminum hafa leitað skjóls í þróunarríkjum. 8 ríki hýsa meir en humanitarian2helming flóttamanna heimsins. Aðeins tíu ríki standa straum af 75% af því fé sem Sameinuðu þjóðirnar hafa til þess að lina þjáningar fólksins og finna lausn á vanda þeirra.

Ef ábyrgð og byrði væri jafnt skipt stæðu þau ríki sem taka við flestum flóttamönnum ekki frammi fyrir þeim tröllaukna vanda sem raun ber vitni. Við höfum efni á að hjálpa, og við vitum hvers er þörf til að mæta miklum fjölda flóttamanna og farandfólks. En of oft, látum við ótta og vanþekkingu þvælast fyrir. Mannlegar þarfir mæta afgangi og útlendingahatur ber skynsemina ofurliði.

Framvarðaríkin í þessari glímu berjast í bökkum og eru að kikna undan þunganum. Allsherjarþingið mun halda fund æðstu manna 19.september til að efla viðleitni okkar til að finna langtímalausn. Ég hef látið taka saman skýrslu „Í öruggu skjóli og við reisn” til þess að hjálpa alþjóðasamfélaginu að grípa þetta tækifæri. Þar er að finna ráðleggingar um hvernig heimurinn getur tekið höndum saman um skilvirkari aðgerðir.

Fyrst verðum við að viðurkenna að við tilheyrum öll mannkyninu. Milljónir manna á vergangi hafa mátt þola ógnvekjandi þjáningar. Þúsundir hafa týnt lífi á leið yfir Miðjarðarhafið, í Andaman hafi, á Sahel-svæðinu og í Mið-Ameríku. Flóttamenn og farandfólk eru ekki „hinir”; þetta fólk er jafn fjölbreytt og sjálf fjölskylda mannsins. Straumar fólks eru í eðli sínu alheimsvandi sem krefst þess að ábyrgðinni sé deilt á heimsvísu.

Í annan stað eru hreyfingar flóttamanna og farandfólks alls ekki ógn því fólkið leggur fram sinn skerf til vaxtar og þróunar jafnt ríkjanna sem taka á móti þeim, sem heimalandanna. Því betur sem hinir nýkomnu aðlagaðagast, því meiri akkur eru þeir samfélaginu. Við þurfum auknar aðgerðir til að efla félagslega og efnahagslega aðlögun flóttamanna og farandfólks.

Í þriðja lagi bera stjórnmálamenn og aðrir forystumenn ábyrgð á því að tala gegn mismunun og umburðarleysi og skora þá á hólm sem reyna að vinna sér fylgi með því að ala á ótta og flokkadráttum. Nú er tími til að leggja brýr, ekki hlaða múra á milli fólks.

humanitarian3Í fjórða lagi þá þurfum við að gefa meiri gaum að orsökum þess að fólk neyðist til að yfirgefa heimili sín. Sameinuðu þjóðirnar munu sem fyrr efla viðleitni sína til að hindra átök, leysa deilur á friðsamlegan hátt og takast á við mannréttindabrot áður en þau stigmagnast. Mikilvægt nýtt tæki felst í Áætlun 2030 um Sjálfbæra þróun, vegvísi sem öll 193 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu á síðasta ári. Þar er að finna afdráttarlaus ákvæði um gildi réttarkerfis, stofnana og friðsamlegra samfélaga.

Í fimmta lagi er þess þörf að styrkja hið alþjóðlega kerfi sem heldur utan um mikla fólksflutninga með það fyrir augum að mannréttindaákvæði séu virt og nauðsynleg vernd sé veitt. Ríkjum ber að virða alþjóðlegar lagaskyldur sínar, þar á meðal Flóttamannasáttmálann frá 1951. Ekki má láta þau ríki sem fyrst taka á móti flóttamönnum axla bera ein hitann og þungan af vandanum. Í skýrslu minni er lagt til alþjóðlegt samstarf um skiptingu ábyrgðar á flóttamönnum á heimsvísu.

Það er knýjandi þörf á að gera meira til að berjast gegn manneskjusmyglurum, og að efla björgun og vernd fólks á faraldsfæti og tryggja öryggi og mannlega reisn á landamærum. Brýnt er að tryggja að fyrir hendi séu skipulegar og löglegar leiðir fyrir farandfólk og flóttamenn, til þess að örvæntingarfullt fólk sé ekki þvingað til þess að leita á náðir glæpamanna til að tryggja öryggi sitt.

Búist er við að fjöldi farandfólks aukist verulega í takt við aukningu viðskipta og skorts á vinnuafli og tæknilegri kunnáttu, greiðari samgöngur og fjarskipti, vaxandi ójöfnuð og loftslagsbreytingar. Í skýrslu minni legg ég til þýðingarmiklar aðgerðir til að bæta stjórnunarhætti í heiminum á þessu sviði, þar á meðal með „alheims-samkomulagi um örugga, skipulega og reglubundna fólksflutninga.”

Sá vandi sem skapast hefur vegna fjölda flóttamanna og farandfólks er langt í frá að vera óleysanlegur, en hann verður ekki leystur af hverju ríki humanitarian4fyrir sig. Í dag er milljónum flóttamanna og farandfólks meinað um grundvallarréttindi og heimurinn nýtur ekki ávinningsins af því sem þetta fólk hefur fram að færa.

Á leiðtogafundi ríkja heims um mannúðarmál sem ég hef boðað til í Istanbul, 23.og 24.maí, verður farið fram á að ríki og aðrir hlutaðeigandi aðilar, skuldbindi sig til að vinna saman í því skyni að vernda fólk og auka viðnám. Ég vonast til að fundur Allsherjarþingsins 19.september muni vísa veginn til lausna á brýnustu áskorunum sem fylgja fjölda flóttamanna og farandfólks og skuldbindi veraldarleiðtoga til meira samstarfs á heimsvísu um þessi mál.

Fólk hefur verið á faraldsfæti um heimsbyggðina frá örófi alda, ýmist af fúsum og frjálsum vilja eða af illri nauðsyn og svo mun verða áfram um alla fyrirsjáanlega framtíð. Einungis með því að uppfylla þá skyldu okar að vernda þá sem fýja undan ofsóknum og ofbeldi, og með því að taka tveimur höndum þeim tækifærum sem flóttamenn og farandfólk gefa hinum nýju samfélögum sínum, mun hlutskipti okkar allra verða að ganga til móts við framtíð þar sem meiri velmegun og jöfnuður ríkir.