Forysta og loftslagsbreytingar eftir Ban Ki-moon

0
436

NÝJAR sannanir berast á hverjum degi. Loftslagsbreytingar eru orðnar raunveruleiki fyrir hvert mannsbarn á jörðunni.

Til að nefna aðeins eitt dæmi þá skýrðu vísindamenn í Bandaríkjunum frá því nýverið að íshellan á Norðurskautinu bráðnaði hraðar en talið var hugsanlegt. Samkvæmt útreikningum þeirra verður sumarísinn í Norður-Íshafinu horfinn árið 2050. Fyrri rannsóknir bentu til þess að þetta myndi ekki gerast fyrr en eftir eina öld.

Það er því engin furða að loftslagsbreytingar séu efst á baugi í alþjóðastjórnmálum. Af þessum orsökum boðaði ég leiðtoga heimsins til fundar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í dag 24. september. Ég hef þungar áhyggjur af því að núverandi viðbrögð okkar séu engan veginn fullnægjandi.

Fundurinn í dag er pólitískt ákall um aðgerðir. Það er kominn tími til að hvert einasta ríki hvort sem það er lítið eða stórt átti sig á því hve brýnt það er siðferðislega að takast á við loftslagsbreytingar af auknum krafti og skilja að þetta eru sameiginlegir hagsmunir okkar. Loftslagsbreytingar eru það málefni sem skilgreinir okkar daga.

Niðurstöður vísindanna eru skýrar. Fyrr á þessu ári tóku helstu vísindamenn heims niðurstöðurnar saman á skýrari hátt en nokkru sinni fyrr á vettvangi Milliríkjavettvangs Sameinuðu þjóðanna (Intergovernmental Panel for Climate Change (IPCC)). Loftslagsbreytingar eru raunverulegar. Áhrif þeirra geta orðið alvarlegar, jafnvel hörmulegar á næstu áratugum. Við vitum hvað ber að gera. Tæknin er til staðar og við vitum til hvaða aðgerða er hægt að grípa með viðráðanlegum kostnaði. Við verðum að ráðast til atlögu við vandann nú þegar.

Það sem við höfum ekki er tími. Þegar ég var á ferð í Tsjad nýlega sá ég með eigin augum áhrifin á íbúana. Um það bil 20 milljónir manna treysta á neysluvatn úr stöðuvatni og vatnakerfi sem hefur minnkað svo mjög að það er aðeins tíundi hluti af því sem það var fyrir þrjátíu árum. Mestu rigningar í manna minnum eru nú í Afríku og heimili hundraða þúsunda manna hafa skolast burt. Þetta eru teikn á lofti og fyrirboði þess sem koma skal. Vandamálin sem okkar kynslóð stendur frammi fyrir munu leggjast enn þyngra á börnin okkar, sérstaklega ef við höfumst ekki að.

Með því að boða til fundarins í dag hef ég skorað á forystumenn ríkja heimsins að sýna forystu. Forysta snýst um að velja á milli kosta, sérstaklega erfiðra kosta, og að marka nýja stefnu. Forysta snýst um hugsjón og pólitískan vilja – getuna til að sjá fyrir hvað ber að gera og um að hraða breytingum. Ég veit að þetta verður ekki sársaukalaust. En við forðumst enn meiri ársauka með því að aðhafast skjótt.

Iðnríki munu bera þyngstar byrðar. Þau ríki sem hafa skapað stærsta hluta vandans bera mesta ábyrgð á því að draga úr útblæstrinum sem veldur loftslagsbreytingum

Á sama tíma er nauðsynlegt að þróunarríki finni hvatningu til að leggjast á sveifina af fullum þunga. Við leysum ekki loftslagsvandann með því að ætlast til að þau færi fórnir sem ekki er sanngjarnt að biðja þau um.

Jörðin okkar er viðkvæmari en ætla mætti. Mikil skakkaföll blasa við heilum vistkerfum sem brauðfæða milljónir manna. Í sumum tilfellum eru það ekki aðeins dýrategundir heldur heilar þjóðir sem eru í útrýmingarhættu. Og afleiðingarnar leggjast af mestum þunga á þá sem síst skyldi; þá sem bera minnsta ábyrgð á vandamálinu og eiga erfiðast með að spyrna við fótum. Þetta er siðferðilegt vandamál. Við þurfum að bregðast við með sameiginlega ábyrgð og almannahag að leiðarljósi.

Aðgerðir á landsvísu verða í forgrunni. Hingað til hafa þær ekki verið fullnægjandi. Fimmtán árum eftir að Rammasamningurinn um loftslagsbreytingar var samþykktur í Rio og tíu árum eftir að Kyoto viðaukinn (skuldbindingar hans renna út 2012) var undirritaður, er útblástur koltvísýrings í iðnríkjunum enn að aukast.

Samt er ekki nóg að bregðast við á landsvísu. Lofttegundir sem hafa áhrif á loftslagið virða engin landamæri. Alþjóðlegrar samvinnu er þörf vegna þeirra margslungnu pólitísku og efnahagslegu hagsmuna sem eru í veði. Við höfum úrvals samstarfsvettvang. Hann heitir Sameinuðu þjóðirnar. Þær eru í óskastöðu til að þjóna sem vettvangur til að finna þýðingarmikla, réttláta og sjálfbæra lausn á loftslagsbreytingum.

Á þessu ári stöndum við á krossgötum. Á þessu ári hafa ríkisstjórnir fallist á óyggjandi niðurstöður Alþjóðlega vettvangsins um loftslagsbreytingar (IPCC) og loftslagsbreytingar eru efst á baugi í stjórnmálum um allan heim. Ég hvet nú leiðtoga heimsins til að sýna forystu.

Ríkisstjórnum ber að vinna í senn af krafti og með sköpunargleði að vopni til að hægt verði að semja viðræðuramma á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Bali, nú í desember. Við þurfum nýtt og heildstætt milliríkjasamkomulag um loftslagsbreytingar sem allar þjóðir geta stutt.

Þetta er ögurstund fyrir okkur öll. Við berum sögulega ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum. Barnabörn okkar munu dæma okkur.

Höfundur er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. (Grein þessi birtist í fjölmörgum dagblöðum um allan heim, þar á meðal Morgunblaðinu 24. september 2007)