Frá Blade runner til sjálfbærrar þróunar

0
826

Hvað eiga kvikmyndin Blade Runner og herferðin „Ég-myndi-frekar-vilja-vera-nakin-en-ganga-í-pels?” sameiginlegt? Ekkert á yfirborðinu. Nema það að þessi tvö fyrirbæri mynduðu hugsanatengsl í huga ungs tískuhönnuðar. Hann fór að velta vöngum yfir því hvort hægt væri að stöðva dýraníð og bjarga heiminum á sama tíma með sjálfbærri framleiðslu.

Ingvar Helgason

Ingvar Helgason er fæddur 1980 og var því ekki nema tveggja ára þegar vísinda-tryllirinn Blade Runner var frumsýndur í kvikmyndahúsum. Sú mynd var byggð á skáldsögu Philips K.Dicks, „Dreymir vélmenni um raf-sauði?” ( Do Androids dream of Electric Sheep?). Ingvar Helgason hefur ekki dreymt um rafmagnað sauðfé svo vitað sé, en draumur hans er, að ein hugmyndanna í vísindaskáldsögunni verði að veruleika.

Frekar nakin en í pels

Þótt Ingvar Helgason sé jafn íslenskur og íslenska sauðkindin hefur hann dvalið langdvölum erlendis. Hann hætti í skóla á unglingsaldri og hélt á vit tískuheimsins í Lundúnum og París. Tuttugu og fimm ára gamall var hann búinn að koma á fót sínu eigin tískumerki.

Frá Blade runner til sjálfbærrar þróunarÁ þeim tíma leituðu uppboðshús á borð við Copenhagen Furs og Saga furs á náðir upprennandi hönnuða eins og Ingvars. Það var á brattann að sækja eftir að ofurfyrirsætur lögðu herferð gegn dýraníði lið. „Naomi Campbell var á áberandi auglýsingaskiltum og henni lögð í munn slagorðið:  „Ég-myndi-frekar-vilja-vera-nakin-en-ganga-í-pels”. Þetta var í eitt fyrsta skiptið sem alenningur snérist gegn dýra-afurðum.”

Hversu kúl…. ?

Ingvar brást ekki við neyðarópi skinna-iðnaðarins á þeim tíma. En þetta vakti hann til umhugsunar. „Ég er aðdáandi vísinda-skáldskapar og hugsaði með mér. „Hvað ef  það væri hægt að búa til skinn á rannsóknarstofu- eins og í Blade runner.“

Í Blade Runner, einni af uppáhaldsmyndum Ingvars, leysir glæpamál þegar hann finnur strikamerki á hreistri slöngu og þar með uppruna hennar. Rekur hann svo slóðina til náunga sem ræktar snáka og uglur.

Ingvar minnist þess að hafa hugsað: „Hversu kúl væri það að leysa þessi mál með því að rækta þetta á rannsóknarstofu?“

En á þessum tíma rak hann tískufyrirtæki en þegar því ævintýri lauk eftir tíu ár árið 2015 var kominn tími til að leita að nýjum ævintýrum.

Kjöt úr frumum

Um þetta leyti hafði Andras Forgacs hleypt af stokkunum nýsköpunarfyrirtæki sínu Modern Meadow í New Jersey í Bandaríkjunum. Vöktu „TED Talk” fyrirlestrar hans um að framleiða kjöt úr frumum nautgripa mikla athygli.

Og þá rifjuðust Blade Runner-hugleiðingarnar upp fyrir Ingvari. Hann komst að því að Modern Meadow var enn á hugmyndastigi og því væri tækifærið enn fyrir hendi.

Frá Blade runner til sjálfbærrar þróunarGoogle sem var ekki til í Blade Runner, hjálpaði Ingvari að finna vísindaamanninn Dr. Dusko Ilic professor við King´s College. Hann var ekki upprifinn í byrjun en lét síðan til leiðast.  „Ef þú sérð um fjármagnið sé ég um vísindin.“

Rétt eins og vélmennin sem dreymdu um raf-sauði en enduðu í bíómynd, varð Ingvar að laga sig að raunveruleikanum. Í stað þess að búa til pelsa og felda snéru þeir sér að leðri. „Það er einfaldara.“

VitroLabs Inc mun því frekar skaffa heiminum milljón handtöskur en milljón loðfelda. En þetta kann að vera skynsamlegt því ekki aðeins hefur eftirspurn eftir leðri aukist, heldur hefur framboð líka dregist saman.

Miklir möguleikar

Þótt auðvitað sé að ýmsu leyti við ramman reip að draga eru sannarlega möguleikar fyrir hendi.

Ingvar bendir á að helmingur 5-10 milljarða dala veltu munaðarvöru-iðnaðarins megi rekja til leðurvöru, en velta þess iðnaðar heild nemur svo 400 milljörðum dala árlega

„Leðuriðnaðurinn býr til þessa vöru með hrottalegum aðferðum dýraiðnaðarins og veldur miklum umhverfisspjöllum.“

Þetta er tæplega ofmælt. Stórir hlutar regnskóga Amazon hafa verið ruddir til þess að rýma fyrir beitarlandi fyrir nautgripi sem nýtast kjöt- og leðuriðnaðinum.

Ekki þarf að koma á óvart að þeir sem hafa áhuga á sjálfbærni skuli beina sjónum sínum að kjöt- og leðuriðnaði. Í leðurframleiðslu fer 80% húðar dýrsins í ruslið. Á að gíska 320 milljarðar lítra vatns fara til spillis og 50 milljónir dýra eru drepin til að þjóna leður- og tískuiðnaði. Í þessum greinum eru sannarlega tækifæri til að þoka áfram Heimsmarkmiðunum um Sjálfbæra þróun, ekki síst þeim sem snúa að ferskvatni (5), ábyrgri framleiðslu og neyslu 12), loftslagsmálum (13) og líf á landi (15).

Reynsla bílaiðnaðarins

Kjöt og leður eru sótt til naugripa og því kunna lausnir á öðru sviðinu að nýtast hinu.

„Það er happ að við erum ekki ein í þessu. Nú þegar eru kjöt komið á markað sem sótt er ýmist til jurtaríkisins eða framleitt úr dýrafrumum.“

Leðuriðnaðurinn mun ekki í einu vetfangi ganga sjónarmiðum sjálfbærni á hönd. Hins vegar liggja breytingar í loftinu. Í bílaiðnaðinum ætla rótgróin fyrirtæki frá Jaguar til Volvo að skipta bensínknúnum bílum út fyrir rafbíla á næstu fimm til tíu árum. „Einn aðili – td.Tesla- getur valdið straumhvörfum og þegar það gerist, geta hlutirnir gerst hratt,“ segir Ingvar.

Framleiðsla nautgripahúða er enn á rannsóknarstigi en þess verður ekki langt að bíða að dyrnar opinist. Mörg tæknilega vandamál hafa þegar verið leyst.

Að taka frumu úr kú

Svona lítur húð út þegar hún hefur vaxið í frumusmiðju Ingvars og félaga.

„Við tökum frumu úr kú, því næst hönnum við hana með þau einkenni í huga sem við erum að leita að. Hún þenst síðan út í frumusmiðjunni þar sem hún fjölgar sér síðan eins og þörf krefur.“

Frumurnar eru síðan festar á ramma og látnar vaxa þar til þær hafa náð þykkt húðar nautgriparins. Þá er komið að sútuninni. Ingvar bendir á að efnanotkun sé 90% minni í þeirra sútun en með hefðbundnum aðferðum. Venjulega nýtist 80% húðarinnar ekki, heldur endar í sorpi og landfyllingum.

„Við látum frumurnar vaxa þar til þeirri þykkt er náð sem við þurfum. Þess vegna fer ekkert til spillis.“

Leðurlíki hefur verið á markaðnum frá því á sjöunda áratugnum. Plast hefur verið notað og meira að segja sveppir og allt þar á milli. „Yfirbragð alls þessa er mjög einhæft og skortir einkenni og notagildi leðurs. Þetta erum við að leysa,“ segir Ingvar.

Vinnsla í Evrópu

Þessa stundina er fyrirtæki Ingvars og félaga hans að ljúka fjármögnun og þá verður hægt að hefja framleiðslu svo einhverju nemi.

Ætlunin er að framleiðslan fari fram í Frakklandi eða jafnvel Þýskalandi.

Ingvar minnir á nýleg upphlaup í tengslum við bílaiðnaðinn. Þá kom í ljós að leðursæti í bifreiðum komu frá Paragvæ og höfðu bændur flæmt frumbyggja á brott til að rýma fyrir beit nautgripa. Bílaframleiðendurnir vörðust og bentu á ógegnsæja aðfangakeðju. Þeir gætu í raun ekki vitað hvaðan hraáefnið kom.

Umhverfis-fótspor leðurframleiðslu hefst þegar tré í Amazon-skóginum er höggvið í þágu sísvangra nautgripa. Þegar þeim hefur verið slátrað er húðin send frá Suður-Ameríku langan veg til ríkja á borð við Eþíópíu eða Kambódíu þar sem fyrsta stig sútunar fer fram.

Kýr ferðast í kringum hnöttinn

Að því loknu eru húðirnar sendar áfram til frekari verkunar í Evrópu þar sem rekið er smiðshöggið á sútunina og unnin var úr leðrinu.

„Kú sem slátrað er í Suður-Ameríku ferðast hringinn í kringum hnöttinn, jafnvel oftar en einu sinni áður en hún er orðin að vöru og heldur ferðalaginu áfram,“ segir Ingvar. „ Og jafnvel þótt afgöngum sé fundið hlutverk þá er umhverfissporið tröllaukið. Okkar markmið er að minnka umhverfisáhrifin.“

Og þetta skýrir hvers vegna það er skynsamlegt að húðirnar vaxi og séu framleiddar í nágrenni við loka-sútunina og vöruframleiðsluna. Með þessu móti er dregið úr umhverfisspjöllum og losun gróðurhúsalofttegunda.

Kjöt og leður sem vex úr dýrafrumum standa neytendum en ekki almennt til boða, en verða það í nánustu framtíð.

Vísindaskáldsögu verða að veruleika

Margt af því sem boðað var í fjörutíu ára gömlum vísindatrylli á borð við Blade Runner er orðinn hluti af hversdegi okkar á þriðja áratug tuttugust og fyrstu aldarinnar.

Marsrigningin bylur á glugga mínum þegar síðegis Zoom-fundi okkar Ingvars Helgasonar er að ljúka. Hann baðar sig hins vegar í morgunsól Kaliforníu þegar ég minnist þess skyndilega að það uxu ekki bara slöngur og uglur úr frumum í Blade Runner heldur líka fólk.

„….við eru ekki á þeim buxunum,” segir Kaliforníubúinn.

-Lofar?

„Já í bili að minnsta kosti,” segir Ingvar skelmingslegur á svip.