Frá Oslóarsamningum til ofurhetju á You Tube

0
478

 Egeland Syria

Apríl 2013. Jan Egeland lék lykilhlutverk þegar hópur norskra stjórnarerindreka úr Verkamannaflokknum komu friðarferli á milli Ísraela og Palestínumanna af stað

sem lauk með undirritun svokallaðs Oslóarsamnings fyrir tuttugu árum í ár. Þetta er sennilega merkasta framlag Norðurlanda til friðarmála, amk. á síðari árum. 

cover artEf ungir Norðmenn eru spurðir í dag um Jan Egeland svara þeir hins vegar líklega: “ já er hann ekki Ofurhetja Sameinuðu þjóðanna”? Meir en half milljón hefur horft á lagið Jan Egeland  þar sem góðlátlegt grín er gert að norska diplómatnum og hjálparstarfsmanninum á You Tube rásinni á internetinu – ekki slæmt ef haft er í huga að Norðmenn eru um fimm milljónir talsins! Oslóarsamningarnir skiluðu leiðtogum Ísraela og Palestínumanna friðarverðlaunum Nóbels. Jan Egeland lét ekki staðar numið og á undanförnum tveimur áratugum hefur hann komið víða við. Hann var um tíma aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og sá um mannúðarmál. Nú er hann varaforstjóri Human Rights Watch og stýrir starfseminni í Evrópu.

Hann býr í Osló en daginn sem við töluðum við hann í síma var hann nýkominn frá Sýrlandi, á leið til Parísar og að undirbúa heimsóknir til Líbanons og Kúveits.

Fyrst spyrjum við hann um Oslóarsamninginn – hvernig stóð á því að Norðmenn (Egeland, Mona Juul og Terje Rød-Larsen) hófu afskipti af friðarviðleitni í Mið-Austurlöndum?

«Ég var pólitískur ráðuneytisstjóri (statssekretær) í utanríkisráðuneytinu og hafði fengið umboð Thorvalds Stoltenberg, utanríkisráðherra til að kanna hvort Noregur gæti leikið hlutverk í friðarviðræðum sem allir bjuggust við að myndu hefjast í byrjun tíunda áratugarins,» segir Egeland.

« Við áttuðum okkur á því að ef PLO væri ekki með, væri útséð um að friðarsamningar tækjust. Tvennt gerðist í einu, PLO kom til Oslóar og spurði hvort við í nýju stjórn Verkamannaflokksins gætum haft samband við Ísrael fyrir þeirra hönd á bakvið tjöldin. Á sama tíma hafði Rød-Larsen samband við nýju Verkamannaflokksstjórnina í Ísrael. Við gátum því leikið þetta hlutverk því að við vorum á meðal fárra sem höfðu bæði góð tengsl við Ísrael og þá sérstaklega ísraelska Verkamannaflokkinn sem kom til valda 1992 og PLO.»

Eru einhverjir lærdómar sem geta nýst í dag?

Egeland Annan«Lærdómurinn er eiginlega sá að það er erfitt að fá stríðandi fylkingar til að komast að samkomulagi en enn erfiðara að fá þá til að hrinda því í framkvæmd. Ef við gerðum einhver mistök þá voru það þau að vanmeta andstæðinga friðar hjá báðum aðilum.»

Sama dag og við ræddum við Egeland gaf Human Rights Watch út skýrslu sem fjallað var mikið um í fjölmiðlum um allan heim þar sem fjallað var um loftárásir sýrlenska flughersins á óbreytta borgara. Egeland var í Sýrlandi í febrúar síðastliðnum. 

«Ég var í stærstu borginni Aleppo í lok febrúar. Mér finnst alvarlegt að sjá að í milljónaborg þar sem geysað höfðu harðir bardagar í heilt ár, sást ekkert til alþjóðasamfélagsins. Hvorki sést tangur né tetur af Sameinuðu þjóðunum né Rauða Krossinum. Sýrlenskir borgarar verða að miklu leyti að sjá um sig sjálfir í verstu átökum okkar tíma. Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) eru í þeirri stöðu að geta bara starfað þar sem stjórnarherinn er við völd, vegna þess að stjórnvöld eru de jure aðildarríki að Sameinuðu þjóðunum, en þetta þýðir að milljónir Sýrlendinga fá varla nokkra hjálp.»

Egeland hefur tekið þátt í friðarviðleitni víða og starfaði hjá Rauða krossinum áður en hann varð aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og stýrði og samræmdi mannúðaraðstoð. Árið 2006 útnefndi tímaritið Time hann einn af  «100 mönnum sem móta heiminn.»

Í krafti embættis síns hjá Sameinuðu þjóðunum var hann í fararbroddi við að glíma við afleiðingar flóðbylgjunnar á Indlandshafi en lét einnig til sín taka á stöðum eins og Darfur og Austurhluta Kongó, svo eitthvað sé nefnt.

En hvað eru erfiðustu aðstæður sem hann hefur lent í?

«Ég held ég hafi komið til 110 landa frá því ég hleypti heimdraganum og fór til Suður-Ameríku á unglingsárunum. Það er erfitt að segja. Auðvitað var skelfilegt að sjá að flugskeyti höfðu lagt heilu íbúðahverfin í rúst í Sýrlandi í febrúar og það er eitt af því versta Egeland Clintonsem ég hef séð og upplifað. Þegar við komum til Aleppo voru foreldrar að draga lík barna sinna út úr rústunum eftir sprengjuárás kvöldið áður. En almennt séð er erfiðast að horfa upp á þegar þeir sem höllustum standa fæti eru fórnarlömb í stríði og átökum. Það nístir í hjartað. Dapurlegasta reynslan er að hitta konurnar sem nauðgað hafði verið í Austur-Kongó og börnin sem Frelsisher Drottins hafði rænt í Norður-Úganda. Að mínu áliti er ofbeldi gegn konum og börnum í stríði og á hættusvæðum og í ríkjum bókstafstrúarmanna ein mesta meinsemd samtímans og athyglin ætti að beinast mun meira að ofbeldi og misnotkun þeirra sem minnst mega sín.»

Nafn Egelands er nú á allra vörum á meðal norskra táninga sem ekki eru endilega mjög uppteknir af alþjóðamálum. Átæðan er lag norsku «stuðmannanna» Ylvis sem heitir eftir Jan Egeland. «Þegar handsprengjum er hent/treystum við aðeins einum/Í stríð og í víti, sendum við Jan Egeland/Ofurhetju Sameinuðu þjóðanna.»

«Mér finnst þetta alveg frábært!» segir Egeland. «Maður verður að hafa húmor og geta hlegið að sjálfum sér. Þetta er líka frábær hljómsveit og mjög fyndið, vel spilað og vel samið lag. Það eru ekki margir hjá Sameinuðu þjóðunum sem geta státað af hálfri milljón heimsókna á You Tube!»

Myndir: 

Jan Egeland talar við Sýrlendinga í starfi sínu hjá Human Rights Watch í febrúar 2013. (Mynd: Human Rights Watch)

Úr myndbandi Ylvis um Jan Egeland (Ylvis) 

Jan Egeland og Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna 30. desember 2004 skýra blaðamönnum frá viðbúnaði til að bregðast við flóðbylgjunni miklu á Indlandshafi (SÞ/Evan Schneider)

Jan Egeland hittir Bill Clinton, sérstakan erindreka Sameinuðu þjóðanna til að fást við afleiðingar flóðbylgjunnar á Indlandshafi 2005. (Mynd: SÞ/Evan Schneider )