Frá spænsku veikinni til COVID-19 – með viðkomu í hvíta dauða

0
974
COVID-19, gamalt fólk
Agnes Veronika og Helga Guðmundsdóttir. Mynd: Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Hafi einhver munað tímana tvenna er það hin hundrað og tveggja ára gamla Helga Guðmundsdóttir í Bolungarvík. Hún fagnaði því fyrr í vikunni að vera vera orðin laus við vágestinn COVID-19 sem herjað hefur á íbúa hjúkrunarheimilisins Bergi.

Barnabarn hennar Agnes Veronika Hauksdóttir hafði ekki unnið í heilsugeiranum um langt skeið þegar hún ákvað að nýta sér nám sitt sem sjúkraliði og ganga til liðs við bakvarðasveitina. Hefur hún nú um nokkurra vikna skeið hlúð að gamla fólkinu þar á meðal ömmu sinni háaldraðri.

„Satt að segja vissi ég varla hvað sóttkví var,” segir Agnes Veronika í samtali við vefsíðu UNRIC. „Og ég var eiginlega hissa að amma var alveg með á nótunum.”

COVID-19, 102 ára
Amman og barnabarnið við óvenjulegar aðstæður. Mynd: Jóhannes Kr. Kristjánsson

Spænska veikin

Það var engin tilviljun því föðurbróðir hennar þurfti að vera í sóttkví á æskuheimili hennar vegna spænsku veikinnar 1918 þegar hún var á fyrsta ári. Helga er ern en auðvitað man hún þetta ekki sjálf heldur þekkir það af frásögnum en hún er frá Blesastöðum í Skeiðum þar sem hún ólst upp ein átta systra og fjögurra bræðra.

„Hún hefur talað mikið um spænsku veikina. En líka utlandsferð en hún sá Niagara Fossa í Ameríku.”

Helga er fædd vorið 1917 í lok fyrri heimstyrjaldarinnar og var því danskur þegn við fæðingu. Hún hefur búið á Bolungarvík frá því um miðja síðustu öld en giftist sjómanni af staðnum. Þegar sonur hennar var aðeins tveggja vikna gömul 1952 tóku berklar sem hún veiktist af ung stúlka sig upp aftur og hún varð að fara frá barninu og dveljast í hálft ár á Vífilsstöðum.

Berklar

Helga lifði „hvíta dauðann” eins og berklar hafa verið kallaðir öðru sinni og hefu verið heilsuhraust mest alla ævi að því frátöldu að hún slasaðist illa þegar ekið var á hana gangandi vegfaranda á áttunda áratugnum. Hún bjó heima þar til eftir að maður hennar lést þegar hún var um nírætt. Þegar hún var 98 ára átti ekki að hleypa henni á hjúkrunarheimlii sökum þess hve hún var hress og hraust.

En það tókst að koma henni þangað eftir fortölur og þar veiktist hún af COVID-19 í byrjun apríl eins og margir aðrir á Bergi.  „Þegar hún var kominn með 38 stiga hita, hélt ég að þetta væri búið,” segir barnabarnið Agnes. „En hún var í rúminu aðeins í einn dag, en var með mikla magaverki í þrjár vikur. Hún er hörð af sér og neyddi sig til að drekka, þótt hana langaði ekki til. Það er þvílíkur kraftur í henni.”

Helga eignaðist þrjú börn og á sex barnabörn. Afkomendur hafa hvatt hana áfram með því að standa fyrir utan glugga, spjallað og stappað í hana stálinu, auk þess sem aðrir unnu á Bergi.

40 stiga hiti innanklæða

COVID-19, 102 ára
Bolungarvík. Mynd: Diego Delso / CC BY-SA (https://creativecommons.org/licenses/by-sa/4.0)

Agnes varð eins og gefur að skilja að sinna ömmu sinni og öðrum í hlífðarfatnaði með andlisgrímu, gleraugu og annað tilheyrandi. „Maður var alveg að kafna og erfitt að vinna í 40 stiga hita innan í hálfgerðum pollagalla.” Nú að lokinni sóttkví þegar Bergbúar eru orðnir veirulausir eru grímur, gleraugu og hanskar látnir nægja.

Helga er hörð af sér en Agnes Veronika er hörð á því að góða skapið hafi fleytt henni yfir erfiðustu hjallan. „Hún er jákvæð manneskja, alltaf hlæjandi.”

Undir þetta tekur Jóhannes Kr. Kristjánsson sem vinnur að heimildarmynd ásamt Sævari Guðmundssyni um baráttu Íslendinga við COVID-19.

„Saga hennar er ein sú magnaðasta sem ég hef skrásett. Hún er mikill og sterkur karakter og lífsgleðin hennar og jákvæðni er í raun einstök og til eftirbreytni,” segir Jóhannes.

Hlakkar til að verða 103 ára

„Ég er búin að fá þetta allt er það ekki?“ sagði Helga þegar sjónvarpsmennirnir töluðu við hana þegar hún var lýst veirufrí fyrr í vikunni. Og þegar hún lítur yfir farinn veg má segja að margt hafi drifið á daga hennar, þjóðarinnar og heimsins alls; tvær heimsstyrjaldir og kalt stríð, tveir heimsfaraldrar að ógleymdum hvíta dauðanum sem hún sigraðist á. „Og svo lifi ég svona lengi, og allt er í lagi.”

Og þar sem hún sat við hlið barnabarnsins á Bergi sagðist hún hlakka til að halda upp á 103 afmælisdaginn sinn 17.maí. „Ef einhvern tíma er ástæða til að fagna, þá er það nú”,sagði Agnes og víst er að stóra deginum verður vel fagnað – eftir öllum kúnstarinnar reglum og þríeyksins líka.