Friðargæslusveitir til Mið-Afríku

0
492

CAR1

13.desember 2013. Franskir hermenn eru nú komnir til Bangui, höfuðborgar Mið-Afríkulýðveldisins til að stilla til friðar. Ófriður hefur ríkt frá því svokallaðir Sélekar uppreisnarmenn hófu hernað og hefur ringulreið og hungursneyð fylgt í kjölfarið. Afríkusambandið hyggst senda 6 þúsund hermenn á svæðið til að reyna að koma á stöðugleika í þessu blásnauða landi. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti fyrr í þessum mánuði að afrískt-franskt friðargæslulið skyldi skakka leikinn. 

Amy Martin, fulltrúi OCHA, Samræmingarskrifstofu neyðaraðstoðar Segir að ástandið í höfuðborginni hafi verið sérstaklega erfitt frá því í síðustu viku og umtalsverð skothríð hafi heyrst á götum úti og mikil spenna væri í sumum borgarhverfum. Ástandið er sýnu alvarlegra víða um landið. 

”Séléka hefur náð yfirráðum á mörgum svæðum og íbúar skorið upp herör gegn þeim. Smátt og smátt hafa vígaflokkar sprottið upp um allt og fara um rænandi og ruplandi því miðstjórnarvaldið lætur ekki á sér kræla,” segir hún.
Afríkusambandið hafði samþykkt að 1200 franskir og 3500 afrískir hermenn skakki leikinn í landinu en á fundi í París var ákveðið að fjölga þeim í 1600 franska og 6 þúsund afríska hermenn vegna aukinnar óaldar í landinu. Rauði krossinn telur að ekki færri en 400 hafi látist undanfarna viku bara í höfuðborginni Bangui.

Sameinuðu þjóðirnar telja að tíu prósent landsmanna séu á vergangi og fjórðungur þurfi á matargjöfum að halda.
”Fólk er uppgefið, það hefur engan mat fyrir fjölskyldur sínar og hafa mátt sæta ránum hvað eftir annað. Í raun er engin stjórn í landinu Ríkisvaldið hefur ekki gripið inn í og vígasveitir spretta upp eins og gorkúlur;” sgir Amy Martin.

Mynd: Flickr / United Nations Photo / 2.0 Generic (CC BY-NC-ND 2.0)