Friðarverðlaunum fagnað

0
471

 

2014-peace-laureates

10.október 2014. Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna hefur fagnað því að baráttufólk fyrir réttindum barna hafi hlotið Friðarverðlaun Nóbels.

Norska Nóbelsnefndin tilkynnti í dag að Kailash Satyarthi og Malala Yousafzay hlytu friðarverðlaunin 2014 „fyrir baráttu gegn þeim sem troða réttindi barna og ungs fólks fótum og fyrir réttindum allra barna til menntunar.”

Zeid Ra’ad Al Hussein, mannréttindafulltrúi segir að bæði Malala Yousafzai og Kailash Satyarthi hafi sýnt mikið hugrekki andspænis öflugum andstæðingum.

„Ég vona að þessi viðurkenning á starfi tveggja einstakra verjenda mannréttinda muni efla pólitískan vilja ríkja til að styrkja viðleitni stofnana og einstaklinga um allan heim til að tryggja réttindi barna.”

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kallaði Malala „dóttur Sameinuðu þjóðanna“ því hún hefði bæði unnið í þágu UNICEF og að því að greiða götu Þúsaldarmarkmiðanna um þróun. Kailash Satyarthi hefði átt stóran þátt í að vekja fólk um allan heim til vitundar um barnaþrælkunn. „Hinir sönnu sigurvegarar dagsins eru börn heimsins,“ sagði Ban í yfirlýsingu.

Í rökstuðningi Nóbelsnefndarinnar segir m.a. : „Kailash Satyarthi, tók upp merki Ghandi og sýndi mikið hugrekki þegar hann var í fararbroddi ýmiss konar andófs og mótmæla, ætíð með friðsamlegum hætti, þar sem misnotkun barna í fjárhagslegu skyni, var í brennidepli.”

„Þrátt fyrir ungan aldur hefur Malala Yousafzay þegar barist í mörg ár fyrir réttindum stúlkna til menntunar og hefur sýnt með eigin fordæmi að börn og ungt fólk geta sjálf átt þátt í að bæta eigin hag. Með hetjuskap sínum er hún orðin öflugur talsmaður réttinda stúlkna til menntunar,” segir í yfirlýsingu Nóbelsnefndarinnar.

Teikning: Norska Nóbelsnefndin.