Fulltrúar æskunnar taka völdin í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á Malala deginum.

0
478

MDG2 Malalav2

12.júlí 2013. Á sextán ára afmælisdegi sínum þann í dag leiðir Malala Yousafzai frá Pakistan hóp ungmenna sem yfirtekur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York.

Margir hafa fylgst með sögu Malala Yousafzai, ungu stúlkunnar frá Pakistan sem var við dauðans dyr eftir skotárás Talibana á leið hennar í skólann þann 9. október 2012. Ástæða árásarinnar var stuðningur hennar við menntun stúlkna í landinu. Malala, sem nú er á batavegi, heldur ótrauð áfram baráttu sinni fyrir menntun stúlkna og stundar nú nám í Birmingham á Englandi. Á sextán ára afmælisdegi sínum mun Malala flytja ræðu á meðal ungmenna sem þann dag standa vaktina í allherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Þetta er í fyrsta sinn sem Malala kemur fram í jafn háttsettri opinberri athöfn og mun hún ræða um mikilvægi menntunar.

Viðburðurinn í New York mun vekja athygli á mikilvægi þátttöku barna og ungmenna þegar kemur að mótun menntastefnu og nýtingu sóknartækifæra þeim í hag. Um 4000 þátttakendur munu vera viðstaddir athöfnina í allsherjarþinginu á “Malala deginum”.

Sérstakur sendiherra menntamála hjá Sameinuðu þjóðunum og skipuleggjandi Malala dagsins er Gordon Brown, hann sagði að hugrekki og barátta þessarar ungu stúlku hefðu mikil og afgerandi áhrif “Malala veitir okkur innblástur og er leiðarljós okkar til að gera betur þegar kemur að menntun stúlkna um allan heim”.

Um 57 milljónir barna í heiminum sem eru á grunnskólaaldri hafa engan aðgang að menntun, af þeim eru 30 milljónir stúlkur. Einni af hverjum þrem stúlkum er neitað um menntun, ástæðurnar eru m.a. mismunun, fátækt, barnahjónabönd og annað ofbeldi. Malala Yousafzai, sem á þessu ári hefur verið tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels, er orðin alþjóðlegt tákn fyrir réttindabáráttu stúlkna til menntunar. Með þátttöku sinni á ungmennadegi í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna mun Malala biðla til ríkja um allan heim að forgangsraða þegar kemur að menntun barna ásamt því að varpa ljósi á stöðu annarra barna og ungmenna sem búa við sömu aðstæður og hún. Til stuðings baráttu Malölu, menntun fyrir alla, vinsamlegast skrifið undir bréf til framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna Ban Ki-moon þar sem krafist er neyðaraðgerða til bætt aðgengis að menntun.