Fyrrverandi utanríkisráðherra Nikaragúa, líklega næsti forseti Allsherjarþingsins

0
469

24. mars 2008 –Miguel d’Escoto Brockmann, fyrrverandi utanríkisráðherra Nikaragúa verður að öllum líkindum næsti forseti Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Talsmaður þingsins skýrði frá því í dag að ríki Suður-Ameríku og Karíbahafsins hefðu komist að samkomulagi um að styðja framboð hans.

  
Francisco Javier Arias Cárdenas, sendiherra, formaður ríkjahópsins sendi Srgjan Kerim, núverandi forseta þingsins bréf í síðustu viku þar sem greint var frá þessu. 
Samkvæmt reglum Allsherjarþingsins kemur forsætið í hlut ríkjahóps Suður-Ameríku og Karíbahafsins á næsta þingi sem hefst 16. september næstkomandi.
Á síðustu arum hefur forseti þingsins verið kjörinn með lófataki. Síðasta var kosið um forseta á 46. þinginu (1991-2) þegar þrír frambjóðendur sóttust eftir kjöri. Reglur kveða á um að forseta skuli kjósa þremur mánuðum fyrir hvert nýtt þing sem í þessu tilfelli er fyrir 16. júní. 
D’Escoto Brockmann, er sjötíu og fimm ára gamall. Hann hefur verið utanríkisráðherra Nikaragvúa frá 1979 til 1990 og frá febrúar á síðasta ári hefur hann verið sérstakur ráðgjafi forseta landsins, Daniel Ortega Saavedra,  í utanríkismálum.