Fyrsti alþjóða dagur einhverfu

0
488

Hér fer á eftir ávarp Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á fyrsta Alþjóðadegi vitundar um einhverfu, 2. apríl 2008: 

Í dag er í fyrsta skipti haldið upp á Alþjóðadag vitundar um einhverfu. Ég fagna þessu merka framtaki og lýsi aðdáun minni á frumkvæði Katar og þá forystu sem hennar hátign Sheikha Mozah Bint Nasser Al Missned, eiginkona hans hátignar Emírsins af Katar, hefur sýnt í að efla vitund um misþroska börn. Sýn og frumkvæði hennar hátignar hafa stuðlað að því að efla fötluð börn og umhverfi þeirra í Arabaríkjunum og um allan heim. 

Sameinuðu þjóðirnar ítreka á þessum degi stuðning sinn við réttindi og velferð fólks sem glímir við fötlun – stuðning sem á rætur að rekja til þess grundvallarsjónarmiðs okkar að öllum beri að eiga mannréttindi. Sameinuðu þjóðirnar hafa alla tíð eflt réttindi og stuðlað að velferð fatlaðra, þar á meða misþroska barna. Það er sérstaklega við hæfi að haldið sé upp á þennan dag árið 2008, á sextugsafmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Þar að auki er búist við í ár gildistöku Sáttmálans um réttindi fatlaðs fólks sem Allsherjarþingið samþykkti árið 2006. 

Þegar við eflum almenn mannréttindi fatlaðra barna, skulum við einbeita okkur að því að byggja upp virkt umhverfi þar sem þau geta þroskast sem meðlimir í samfélögum sínum, borgarar ríkja sinna og fullgildir þegnar í veraldarsamfélaginu. Við skulum minnast hugrekkis barna sem glíma við einhverfu og fjölskyldna þeirra sem takast á við fötlunina með sterkri blöndu af ákveðni, sköpunargleði og von. Við skulum efla þau og reyna að mæta þörfum þeirra í dag í því skyni að gera samfélög okkar aðgengilegri og virkari fyrir öll börn í framtíðinni.