Fyrsti dagur barnsins er sá hættulegasti

0
466

motherbaby

7. maí 2013. Best er að ala barn í Finnlandi og verst í Lýðveldinu Kongó samkvæmt nýrri skýrslu sem Barnaheill (Save the Children) hafa gefið út. Á hverjum degi deyja 800 konur á meðan á meðgöngu stendur eða af barnsförum í heiminum. Fjörutíu milljón konur fæða börn án aðstoðar fagfólks.

Í skýrslunni um stöðu mæðra í heiminum er sjónum beint að heilbrigði nýbura en skýrslan ber heitið “Að lifa af fyrsta daginn”. Fyrsti dagur barnsins er sá hættulegasti í nærri öllum ríkjum og meir en ein milljón barna lifir ekki af fæðingardaginn. Þriðjungur þessara dauðsfalla eru í Indlandi.

Í skýrslunni er Mæðravísitala sem sýnir hvar er best og hvar er verst að að ala barn og er byggt á heilsugæslu, menntun, efnahag og pólitískri þátttöku. Norðurlönd bera af og hreppir Finnland, efsta sætið en þar á eftir koma Svíþjóð, Noregur og Ísland. Danmörk er í sjötta sæti en Holland brýtur upp hóp Norðurlandanna og skipar sér í fimmta sætið.

Tíu lægstu sætin eru skipuð ríkjum í Afríku sunnan Sahara; Lýðveldið Kongó, Sómalía, Sierra Leone, Malí, Níger, Mið-Afríkulýðveldið, Gambía, Nígería, Tsjad og Fílabeinsströndin.

Að meðaltali deyr þrítugasta hver kona af orsökum sem tengjast meðgöngu eða fæðingu. Sjöunda hvert barn deyr fyrir fimmta afmælisdaginn. Samkvæmt skýrslunni er næringarskortur ein helsta ástæða mikils mæðra- og barnadauða í þessum ríkjum.

Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) bendir á að viðvera ljósmæðra skipti sköpum fyrir hundruð þúsunda kvenna á hverju ári. Samkvæmt UNFPA bjarga ljósmæður lífi 300 þúsund kvenna og tíu sinnum fleiri barna á hverju ári.

„Með því að fjárfesta í mæðrum og börnum, fjárfesta ríki í framtíðarmöguleikum sínum, “ segir Jasmine Whitbread, alþjóðaforstjóri Save the Children. „Ef konur njóta menntunnar og pólitískrar þátttöku og hafa aðgang að góðri umönnun mæðra og barna; þá aukast líkurnar á að þær og börn þeirra þrífist og sama gildir um þjóðfélögin sem þær búa í, “ bætti hún við.

Mynd: Móðir og barn á Timor-Leste. SÞ-mynd/Ron Haviv